Mogginn
Benjamin Netanyahu fékk að ávarpa þingheiminn bandaríska. Fagnaðarlætin voru stórbrotin. BN varð oftsinnis að gera hlé á ræðu sinni sökum lófataks og húrrahrópa. Það var ekki aðeins í Washington sem var fagnað. Ritstjórinn í Hádegismóum skortir jafnvel orð til að lýsa hrifningu sinni.
„Forsætisráðherra Ísraels flutti mjög öfluga ræðu í bandaríska þinginu í fyrradag, við mikil og verðskulduð fagnaðarlæti þingheims. Þarna sátu þingmenn úr báðum deildum og risu ótt og títt úr sætum sínum og gáfu ræðu gestsins ágætiseinkunn, og reyndar fjölda þeirra, með þeim hætti. Fjöldi baráttubræðra og systra úr hópi Palestínumanna eða stuðningsmanna þeirra var á hinn bóginn með mótmæli og hávaða í námunda við þingið,“ segir í leiðara Moggans.
Svo fer drjúgt pláss í að hnýta að Kamölu Harris.
„Til þess var raunar tekið að varaforseti Bandaríkjanna, Kamala Harris, mætti ekki í sæti sitt, en hún er einnig í forsæti öldungadeildarinnar og fer með úrslitaatkvæði þar, ef atkvæði þar verða jöfn. Útskýrt var þegar um það var spurt að Harris varaforseti verði nú að horfa til kosninga með öðrum hætti en áður var og það gæti haft af henni einhver prósent atkvæða í sérlega viðkvæmum kjördæmum, ef hún væri að standa upp í sífellu og klappa fyrir forsætisráðherra Ísraels, sem er um þessar mundir misvinsæll jafnt innan og utan eigin lands,“ skrifar Davíð.
Leiðarinn endar svona:
„En ráðherrann sá átti skilið hinar öflugu undirtektir bandarískra þingmanna og það þótt allmarga demókrata hafi vantað á fundinn í þetta sinn, þá voru það aðallega fulltrúadeildarþingmenn, sem aðeins eru kosnir til tveggja ára í senn og eru lítt kunnir, jafnvel í sínum eigin kjördæmum og því mjög auðvelt að gera þá tortryggilega í viðkvæmu ástandi.“
Meiri endemis þvæla sem þetta er og vindhöggið á þingmenn Demókrata. Ritstjórinn á sprungusvæðinu í Hádegismóum er samur við sig.