„Listamannalaun held ég að séu rúmar 400.000 kr. á mánuði. Launin eru verktakalaun sem síðan þarf að draga af lífeyrisgreiðslur, orlof og skatt og hafa þau ekki hækkað um nokkurt skeið. Ég velti því fyrir mér hvort ekki væri skynsamlegra að hækka launin eitthvað fremur en að fjölga þeim svo mikið. Það er erfitt að vera ungur listamaður sem er að byrja. Það eru ekki miklir tekjumöguleikar af t.d. bókaútgáfu, sérstaklega þegar um er að ræða höfunda sem eru að hasla sér völl. Íslenskur bókamarkaður er of smár til að halda uppi atvinnuhöfundum einn og sér,“ sagði Birgir Þórarinsson á Alþingi seint í apríl í vor.
Þá var verið að ræða nokkra fjölgun listamanna sem eigi kost á listamannalaunum frá ríkissjóði.
„Höfum hugfast að höfundur á borð við Halldór Laxness var lengst af á hæsta skáldastyrk af hálfu hins opinbera. Aðrir höfundar sem við stærum okkur af unnu verk sín með stuðningi af listamannalaunum. Má þar nefna Davíð Stefánsson, Þórberg Þórðarson, Jóhannes úr Kötlum, Stein Steinarr, Guðmund Hagalín, Tómas Guðmundsson o.fl. Gleymum því ekki að íslenskir höfundar skrifa fyrir eitt minnsta málsvæði í veröldinni. Hlutverk þeirra er því mjög mikilvægt fyrir íslenska tungu sem hefur átt undir högg að sækja eins og við öll þekkjum. Ármann Jakobsson, formaður Íslenskrar málnefndar, segir að vöxtur og viðhald íslensku sé brýnt hagsmunamál fyrir okkur öll, ekki ósvipað loftslaginu og heilbrigðiskerfinu. Ofurvald enskrar tungu sé ein mesta ógnin sem steðjað hefur að sjálfstæði landsins síðustu áratugi,“ sagði Birgir.
Stór hluti af vinnu rithöfundar er sjálfboðavinna. Starfs síns vegna er hann oft kallaður til í útvarpi og sjónvarpi, í grunnskólum jafnt sem háskólum og á málþingum og oftast nær án þóknunar.
Hvað sviðslistirnar varðar er markaðurinn lítill og sýningar fáar. Ég held að óhætt sé að segja að listamenn séu upp til hópa lágtekjufólk. Það er hins vegar feimnismál hjá mörgum og eflaust ekki þægilegt þegar viðkomandi er sjálfur vörumerkið. Það er eflaust heldur ekki þægilegt að vera synjað um listamannalaun, neitað um úthlutun. Það getur síðan valdið því að viðkomandi hættir að skapa. Að mínum dómi vantar meira gagnsæi við úthlutun listamannalauna og ég hefði viljað sjá í þessu frumvarpi að við myndum reyna að bæta það ferli. Það þarf að liggja fyrir hvað höfundar hafa afrekað, hvaða vörur þeir hafa framleitt, ef svo má að orði komast, eða eru að framleiða og það þarf að passa vel upp á að tengsl ráði ekki við úthlutun,“ sagði Birgir Þórarinsson.