Alþingi
„Ég minnist þess þegar þáverandi háttvirtur þingmaður Þráinn Bertelsson ofbauð það hvernig við fórum með tímann hér í þinginu undir umræðu og dagskrárliðnum störf þingsins. Hann var farinn að kalla þann lið hálftíma fyrir hálfvita vegna þess að honum misbauð svo gjörsamlega hvernig menn nýttu þann tíma til málefnalegra skoðanaskipta um málefni dagsins og um hina pólitísku umræðu sem þurfti að eiga sér stað hérna á þinginu,“ sagði forsætisráðherrann Bjarni Benediktsson þegar vantrauststillaga á Bjarkeyju Olsen Gunnarsdóttur var rædd á Alþingi.
Bjarni hélt áfram:
„Menn koma hingað og tína rökin bara af trjágreinum, bara svona eins og það sé hægt að segja hvað sem er hér. Það er ekkert léttvægt mál að bera upp vantrauststillögu á ráðherra. Menn eru farnir að umgangast þetta bara eins og að fá sér mjólkurglas hérna frammi í mötuneyti. Þetta hjálpar ekki við að lyfta upp virðingu þingsins. Þetta hjálpar ekki við að styrkja getu okkar til að komast að góðum niðurstöðum í þessum mikilvægu störfum sem við erum að vinna hér á þinginu fyrir fólkið í landinu.
Og fyrir alla muni ekki misskilja mig þannig að það sé eitthvað að því að veita ríkisstjórninni aðhald. Það er sjálfsagt. Það er eðlilegt. Ég hef alltaf stutt það. Ég er þingræðissinni. En menn ættu þá kannski að lágmarki að nota þann farveg sem er skrifaður út í lögunum til að framkvæma nákvæmlega það aðhald,“ sagði Bjarni Benediktsson.