- Advertisement -

Víggirti og vonlausi forsætisráðherrann

Sigurjón M. Egilsson:

„Hann sem á ævintýralegri feril í viðskiptum og stjórnmálum en sennilega allir sem hafa verið ráðherrar og hvað þá forsætisráðherra Íslands.“

Leiðari Það er pínlegt að Bjarni Benediktsson sé forsætisráðherra Íslands. Þjóðin metur hann svo lítils að hann þarf sérstaka gæslu, daginn inn og daginn út. Til að  hann gæti flutt sína „hátíðarræðu“ varð að stækka og auka víggirðingarnar á Austurvelli, frá því sem áður var á 17. júní. Að auki var lögreglan allt um kring. Ótti ráðherrans er mikil.

Aldrei fyrr hefur nokkur ráðamaður á Íslandi þurft lífverði hvern dag. Bjarni er óvinsælasti stjórnmálamaður Íslands, og það eflaust fyrr og síðar. Það dugar ekki að hlaða í kringum sig lífvörðum og víggirða Austurvöll á þjóðhátíðardaginn. Eins og sést á myndinni á hinn venjulegi Íslendingur ekkert saman við „fyrirmennin“ að sælda.

Bjarni verður ekki betri stjórnmálamaður þó hann hlaði í kringum sig lífvörðum. Fortíð Bjarna er slík að hann átti aldrei að fá að reyna sig aftur í forsætisráðuneytinu. Fólkið vill hann ekki.

Þú gætir haft áhuga á þessum
Frá Austurvelli í gær. Almenningur þarf að standa fjarri því sem fram fór og lögregluþjónar allt í kring.

Það eru að verða straumhvörf í íslenskum stjórnmálum. Loksins. Sjálfstæðisflokkurinn verður trúlega ekki lengi enn stærsti flokkur landsins. Samfylkingin hefur mælst stærri en er nú hægt og bítandi ýta frá sér fylgi.

Aftur að lánlausa forsætisráðherranum. Hér á eftir fer kafli úr ræðu hans á Austurvelli:

…í dag stendur sjálfstætt og fullvalda Ísland hvað fremst meðal þjóða á alla helstu mælikvarða.“

Það er ekkert smá. Hann hélt áfram og sagði: „Hvergi er betra að búa en einmitt hér.“

Bjarni leitaði fanga og fann þennan kafla sem Jóhannes heitin Nordal skrifaði:

Vér, sem nú lifum, höfum fengið að reyna, hve þunn er sú skel siðmenningar, sem skilur jafnvel hinar menntuðustu þjóðir frá fullkominni villimennsku. Þau verðmæti, sem vér metum mest, kunna því að verða fótum troðin, áður en varir, ef slakað er á þeim kröfum um frjálsa stjórnarhætti og virðingu fyrir lögum, þekkingu og mannréttindum sem vestrænt lýðræði hvílir á.

Þarna var Bjarni á hálum ís: Vér, sem nú lifum, höfum fengið að reyna, hve þunn er sú skel siðmenningar…“ Já, hún er þunn skelin. Hún heldur þó Bjarna enn. Hann sem á ævintýralegri feril í viðskiptum og stjórnmálum en sennilega allir sem hafa verið ráðherrar og hvað þá forsætisráðherra Íslands.

Mál er að linni. Þjóðin verður að stöðva atburðarásina.


Auglýsing

Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: