Eldhúsdagur á Alþingi
Alþingi
Ríkisstjórnarflokkarnir senda b-liðið til umræðna á Alþingi í kvöld. Stjórnmálaræður verða þá fluttar, ein af annarri. Varla er hægt að kalla þetta umræður. Nema XD sem sendir tvo ráðherra í ræðustól Alþingis.
Á vef Alþingis segir:
Almennar stjórnmálaumræður (eldhúsdagsumræður) fara fram á Alþingi miðvikudaginn 12. júní og verða sendar út í útvarpi og sjónvarpi. Umræðurnar hefjast kl. 19:40, skiptast í tvær umferðir og hefur hver þingflokkur átta mínútur í fyrri umferð og fimm mínútur í seinni umferð.
Röð flokkanna verður þessi í báðum umferðum: Samfylkingin, Flokkur fólksins, Sjálfstæðisflokkur, Píratar, Framsóknarflokkur, Viðreisn, Vinstrihreyfingin – grænt framboð og Miðflokkurinn.
Ræðumenn flokkanna verða eftirtaldir:
Fyrir Samfylkinguna tala í fyrri umferð Kristrún Frostadóttir, 3. þm. Reykjavíkurkjördæmis suður, og í þeirri seinni Dagbjört Hákonardóttir, 11. þm. Reykjavíkurkjördæmis norður.
Ræðumenn Flokks fólksins eru Inga Sæland, 7. þm. Reykjavíkurkjördæmis suður, í fyrri umferð og Guðmundur Ingi Kristinsson, 9. þm. Suðvesturkjördæmis, í seinni umferð.
Fyrir Sjálfstæðisflokkinn tala Guðrún Hafsteinsdóttir, dómsmálaráðherra, í fyrri umferð og Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra, í seinni umferð.
Ræðumenn Pírata eru í fyrri umferð Gísli Rafn Ólafsson, 13. þm. Suðvesturkjördæmis, og í seinni umferð Lenya Rún Taha Karim, 3. þm. Reykjavíkurkjördæmis norður.
Fyrir Framsóknarflokkinn tala Lilja Rannveig Sigurgeirsdóttir, 3. þm. Norðvesturkjördæmis, í fyrri umferð og Ágúst Bjarni Garðarsson, 11. þm. Suðvesturkjördæmis, í þeirri seinni.
Ræðumenn Viðreisnar eru Sigmar Guðmundsson, 12. þm. Suðvesturkjördæmis, í fyrri umferð og í þeirri seinni Guðbrandur Einarsson, 10. þm. Suðurkjördæmis.
Fyrir Vinstrihreyfinguna – grænt framboð tala Steinunn Þóra Árnadóttir, 2. þm. Reykjavíkurkjördæmis norður, í fyrri umferð og Eva Dögg Davíðsdóttir, 7. þm. Reykjavíkurkjördæmis norður, í seinni umferð.
Fyrir Miðflokkinn tala Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, 7. þm. Norðausturkjördæmis, í fyrri umferð og í þeirri seinni Bergþór Ólason, 8. þm. Norðvesturkjördæmis.