- Advertisement -

Blöndal á biðstofu Hauck & Auf­häuser

Sú var tíðin að fáir vissu nokkuð sem heitið getur um þýska bankann Hauck & Auf­häuser. Okkur var vissulega sagt, og það fullyrt, að þetta væri þýskur alheimsbanki. Stór, stæðilegur og eftirsótt væri að eiga vingott við hann.

Þá var ég fréttaritstjóri á Fréttablaðinu. Blaðið átti þá nokkuð undir sér, og á kannski enn. Við reyndum hvað við gátum til að ná tali af bankastjóra Hauck & Auf­häuser og eða stjórnarformanni hans. Það var sama hversu oft við hringdum eða notuðum aðrar þekktar leiðir til að ná tali af forsvarsmönnum Hauck & Auf­häuser. Allt kom fyrir ekki.

Einn daginn kallaði ég í Hjálmar Blöndal, sem þá var blaðamaður á Fréttablaðinu, og bað hann að fara til Þýsklands. Erindið var að finna Hauck & Auf­häuser og freista þess að fá viðtal við bankastjórann, stjórnarformanninn eða bara einhvern sem gæti og vildi vera talsmaður bankans.

Að sjálfsögðu tók Hjálmar vel í þetta. Hann fór til Þýskalands. Hjálmar settist að á biðstofu Hauck & Auf­häuser. Í heila vinnuviku, muni ég rétt, sat Hjálmar Blöndal á biðstofunni. Bankastjórinn mætti ekki til vinnu, ekki fékkst viðtal við stjórnarformanninn né nokkurn annan sem vildi koma fram fyrir hönd Hauck & Auf­häuser.

Þú gætir haft áhuga á þessum

Hjálmar hringdi í mig á hverjum degi. Stundum oft á dag. Honum leiddist á biðstofunni í Þýskalandi. Sagði fáa koma þangað og að umgengni um hinn litla kontór Hauck & Auf­häuser væri mjög takmörkuð. Hjálmari fannst ekkert benda til að hann væri í höfuðstöðvum stórs alþjóðlegs fjárfestingabanka, einsog gefið hafði verið til kynna. Sagði allt frekar minna á lítinn sparisjóð.

Vikan leið. Hjálmar kom heim. Við náðum ekki settu marki. Enginn vildi eða fékkst til að tala við okkur um Hauck & Auf­häuser. Sem samt var sagður alheims fjárfestingabanki.

Fréttablaðið réðst í mikla úttekt á málinu öllu. Þar stýrði lyklaborði Sigríður Dögg Auðunsdóttir og tókst henni vel upp. Var verðlaunuð fyrir. Eðlilega.

Sigurjón M. Egilsson.


Auglýsing

Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: