Stutt bréf frá Steinunni Ólínu
Steinunn Ólína skrifaði:
Forsetakjör
Elsku vinir. Í kvöld fæ ég að vera í pallborði með dásamlegu fólki vegna þess sem öllum er nú ljóst. Flóðlýst er höllin og hirðin með
Pallborðsfélagar mínir sem ég hef aðeins fengið að kynnast eru heiðarleg og sjálfu sér samkvæm en það sem mestu skiptir er að þau eru sjálfs síns herrar. Það er ekki lítils virði í okkar samfélagi. Mér sýnist við líka öll þekkja þjáninguna og upprisuna. Að hafa af eigin rammleik staðist miskunarleysi tilverunnar. Þess vegna eigum við sameiginlega ástríðuna og trúna á að frekar auðvelt sé að breyta mannanna misjöfnu verkum. Þessu verðið þið að trúa líka.
Við deilum líka trúi ég voninni um að aðrir sjái með ferðalagi okkar hvers manneskjan er megnug og hvernig hún getur látið til sín taka.
Það er ekkert að óttast, nema eigið kjarkleysi. Aldrei hlusta á það þegar þér er sagt að þú sért ekki verður. Allir eru verðmætir í okkar samfélagi. Allir. Og þeir sem við skiljum ekki, bestu kennararnir.
Meistaradeildin sem hin skynuga Ásdís réttilega nefnir hópinn er þverskurður af samfélaginu, við skiljum stráin, við leikum ekki leikinn og aldrei hefur verið settur undir okkur kollur til að standa á. Af eigin rammleik, sviðsetningarlaust og fyrir trúna á að mannsandinn einn geti frelsað okkur bjóðum við fram krafta okkar til samstarfs við fólkið sem þekkir sig í okkur.
Ég hef líka lært af viðkynningu við þetta afbragðsfólk að við deilum skilningi á því hvernig það er að lifa í samfélagi þeirra sem eiga og ráða. Þeirra sem bregða fæti fyrir landa sína og setja þeim reglur sem þau fara ekki eftir sjálf. Pallborðsfélögum mínum treysti ég því öllum til að leggja sjálf sig til hliðar fyrir það sem er stærra, merkilega, göfugra og mikilvægara en þau sjálf. Og þannig er reyndar þorri almennings á Íslandi líka innrættur.
Ástarþakkir fyrir atlætið og hlýjuna alla kosningabaráttuna kæra stuðningsfólk!
Við höfum fundið hvert annað og þar byrjar galdurinn. Saman getum við allt, hvernig sem fer í þessum forsetakosningum
Þvílík lífsreynsla, maður minn!