„Það er morgunljóst að öll ábyrgð á því að hér er verið að brjóta lög hvað varðar atvinnufrelsi skv. 75 gr. stjórnarskrárinnar er lýtur að veiðum og vinnslu hvalaafurða er á herðum Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins,“ segir í nýrri grein Vilhjálms Birgissonar um stöðuna varðandi hvalveiðar.
Vilhjálmur beinir augum sínum að matvælaráðherranum, Bjarkeyjar Olsen Gunnarsdóttur.
„Það eru þessir flokkar sem láta matvælaráðherra Vinstri grænna komast upp með þennan gjörning ekki einu sinni heldur tvisvar sinnum. Munum að það er yfirlýst stefna VG að banna hvalveiðar og flokkurinn notfærir sér þau völd þrátt fyrir að það gangi þvert gegn lögum og stjórnarsáttmálanum og því sem þar var rætt.
Að sjálfsögðu notfæra ráðherrar VG sín völd til að koma sínum flokkssamþykktum í gegn og á þeirri forsendu vísa ég allri ábyrgð á þessum lögbrotum hvað veiðar og vinnslu hvalaafurða á Sjálfstæðisflokkinn og Framsóknarflokkinn.“
Hvað ætli valdi þessu? Jú, Vilhjálmur er ekki í vafa:
„Munum að hvalveiðar snúast um pólitík og það er á ábyrgð XD og XB að stoppa ráðherra Vinstri grænna af.
Á þessum bæjum virðist einungis eitt atriði vera aðalmálið það er að halda í völdin og ráðherrastólanna þrátt fyrir að verið sé að brjóta á atvinnufrelsi einstaklinga og fyrirtækja.
Hafi Sjálfstæðisflokkurinn og Framsóknarflokkurinn skömm fyrir aðgerðaleysi sitt hvað varðar þetta mál og þetta á eftir að verða þessum flokkum dýrkeypt.“
Spá Miðjunnar er að leyfið verði veitt eftir forsetakosningarnar. Líklegast er að Bjarkey stígi fram á mánudag og gefi leyfi til hvalveiða við Ísland.