„Þeim fjölgar efasemdaröddunum innan Sjálfstæðisflokksins um ágæti þess að halda samstarfi þriggja ólíkra stjórnmálaflokka mikið lengur áfram. Óttinn er sá að hægt og bítandi verði skilin milli stjórnarflokkanna óskýrari og að kjósendur eigi „æ örðugara með að finna forsendur fyrir stuðningi sínum við einn flokk öðrum fremur,“ svo vitnað sé til skrifa Ármanns heitins Sveinssonar í Morgunblaðinu 1968,“ segir í vikulegri Moggagrein Óla Björns Kárasonar þingmann Sjálfstæðisflokksins.
Óli Björn er greinilega búinn að fá meira en nóg af samstarfi eigin flokks og Framsóknarflokks og Vinstri grænna. Halda má að þingmaðurinn sé kominn í fýlu. Þegir frekar en að tala. En hvers vegna?
„Í aðdraganda kosninga 2021 tók ég það fram hér á síðum Morgunblaðsins að Sjálfstæðisflokkurinn geti því aðeins tekið þátt í ríkisstjórn að málefnasamningur og verkefni nýrrar ríkisstjórnar endurspegli skilning á samhengi skatta, ríkisútgjalda, hagvaxtar og velsældar. Að samkeppnishæfni þjóðar ráðist ekki síst af öflugum innviðum, hófsemd í opinberum álögum, greiðu aðgengi að erlendum mörkuðum, skilvirkni í stjórnkerfinu og hagkvæmum ríkisrekstri. Ég lagði áherslu á að ríkisstjórnin yrði að vinna að skynsamlegri og sjálfbærri nýtingu náttúruauðlinda. Skilyrðið var og er að viðhorf til atvinnulífsins sé jákvætt,“ skrifar þingmaðurinn Óli Björn.
Hvað ætli angri Óla Björn fyrst og fremst?
„Enn hefur ekki tekist að gera nauðsynlegar breytingar á útlendingalögunum og ná þar með tökum á málum hælisleitenda og stjórn á landamærunum, eins og við höfum lofað. Og enn er brotið á atvinnuréttindum sem sýnir einstaklega neikvætt viðhorf til atvinnulífsins af hálfu Vinstri grænna. Það hefur komið í ljós að stjórnarþingmenn, sem í einlægni vilja halda samstarfinu áfram, eru vopnlausir þegar ráðherra virðir ekki stjórnsýslureglur, meðalhóf og stjórnarskrá.“
Hvers vegna ætli Óli Björn hefur haldið sig til hlés?
„Því miður fjölgar þeim stjórnarmálum sem eru til afgreiðslu á þinginu, sem mér er ókleift að styðja. Þetta veit forysta flokksins sem og félagar mínir í þingflokknum. Þetta er meginástæða þess að ég hef lítið haft mig opinberlega í frammi innan þings og utan.“
Er rétt af þingmanni að láta sem minnst fyrir sér fara?
“…þögninni fylgir ábyrgð, líkt og eldri Sjálfstæðismaður áminnti mig um þegar hann stoppaði mig úti á götu síðastliðinn mánudag. Hann rifjaði upp nýleg skrif mín um að ég hefði ekki afsalað mér réttinum til að gagnrýna, berjast fyrir breytingum á stjórnarfrumvörpum og jafnvel reyna að koma í veg fyrir framgang stjórnarmála, hvað þá að vinna að framgangi hugsjóna. Og þótt sanngjörn málamiðlun sé nauðsynleg í stjórnmálum, yrði ég að móta afstöðu mína til einstakra mála á grunni hugmyndafræði Sjálfstæðisflokksins, eins og ég hefði gefið fyrirheit um. „Ég ætlast til þess að þú takir til máls. Þú vinnur ekki að framgangi stefnu okkar með þögninni.“
Þegar gamli maðurinn kvaddi mig með þéttu handabandi sagði hann: „Aldrei gleyma því að trúnaður þinn er fyrst og síðast við þig sjálfan og hugsjónir okkar Sjálfstæðismanna.“ Skilaboðin voru skýr: Þögnin er ekki lengur valkostur.“
Unnið úr grein Óla Björns. Spurningarnar eru Miðjunnar og settar með skrifum Óla Björns.