- Advertisement -

Kúvending Samfylkingarinnar

Þorsteinn Pálsson skrifaði:

Málið snýst um eitt af mikilvægustu prinsippum í íslenskum stjórnmálum.

Stjórnarflokkarnir gerðu tilraun til þess að festa ótímabundnar nýtingarheimildir náttúruauðlinda í sessi með frumvarpi um lagareldi, sem fram kom fyrir páska.

Sterk andstaða á Alþingi og úti í samfélaginu hefur haft þau áhrif að formaður atvinnuveganefndar hefur opnað á þann möguleika að horfið verði frá þessu áformi við þinglega meðferð málsins. Og nýi matvælaráðherrann, sem tók við málinu, hefur þegar hafið undanhald sitt.

Prinsippmál

Þú gætir haft áhuga á þessum

Afleiðingin er viðvarandi óvissa um leikreglurnar.

Málið snýst um eitt af mikilvægustu prinsippum í íslenskum stjórnmálum. Tímabundinn nýtingarréttur náttúruauðlinda er forsenda fyrir því að hugmyndafræðin um þjóðareign virki.

Í því ljósi er afar mikilvægt að þessi áform verði stöðvuð.

Það var auðlindanefnd dr. Jóhannesar Nordals, sem skipuð var af Davíð Oddssyni þáverandi forsætisráðherra, sem lagði árið 2000 grunninn að hugmyndafræðinni um að stjórnarskrárbinda gjaldtöku fyrir tímabundinn nýtingarrétt náttúruauðlinda.

Nefndin náði samkomulagi allra flokka og helstu félagasamtaka í sjávarútvegi um þetta prinsipp.

Einstök hagsmunasamtök og fyrirtæki sneru hins vegar við blaðinu fljótlega eftir þessa sátt og hafa síðan notað pólitísk áhrif til að koma í veg fyrir að prinsippið yrði fest í lög eða stjórnarskrá.

Afleiðingin er viðvarandi óvissa um leikreglurnar.

Stjórnarskráin

Á síðasta kjörtímabili kynnti Katrín Jakobsdóttir þáverandi forsætisráðherra tillögu að nokkrum nýjum ákvæðum í stjórnarskrá, þar á meðal um auðlindir.

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir formaður Viðreisnar bauðst þá til að samþykkja allar stjórnarskrártillögur forsætisráðherra ef þessu eina orði „tímabundinn“ yrði hnýtt við nýtingarréttinn í auðlindaákvæðinu.

Forsætisráðherra hafnaði þeirri málamiðlunarhugmynd með þeim rökum stærsta samstarfsflokksins að hægt væri að ná markmiðinu í almennum lögum.

Tvöfeldnin í þeirri röksemdafærslu birtist í því að síðasta málið, sem ríkisstjórn hennar lagði fyrir þingið, var frumvarp um afnám gildandi reglu um tímabundinn nýtingarrétt í lagareldi.

Pólitískir leikir af þessu tagi sýna mikilvægi þess að ákvæði um tímabundinn nýtingarrétt auðlinda í þjóðareign verði sett í stjórnarskrá í samræmi við tillögur auðlindanefndar.

Ástæðan

Ætlunin var augljóslega að styrkja þá sérhagsmunagæslu.

Ástæðan fyrir því að stjórnarflokkarnir ákváðu að gera þessa tilraun virðist fyrst og fremst vera sú að tímabinding leyfa í lagareldi hefur veikt málflutning þeirra í vörn fyrir ótímabundinn nýtingarrétt fiskistofna.

Ætlunin var augljóslega að styrkja þá sérhagsmunagæslu.

Að sama skapi ætti það að vera rökrétt afleiðing af því að stjórnarflokkarnir verða gerðir afturreka með þessa tilraun að þeir missi fótfestuna í áframhaldandi sérhagsmunagæslu varðandi nýtingu fiskistofna.

Nýr veikleiki

En pólitíska taflstaðan gæti verið flóknari.

Í umræðum á Alþingi um lagareldisfrumvarpið hafa þingmenn Viðreisnar og Samfylkingar snúist hart gegn afnámi þessarar grundvallarreglu um auðlindanýtingu. Forsendurnar virðast þó ekki vera þær sömu.

Andstaða þingmanna Viðreisnar virðist byggja á þeirri almennu hugmyndafræði að tímabundinn nýtingarréttur eigi að vera meginregla við alla auðlindanýtingu.

Andstaða þingmanna Samfylkingar sýnist á hinn bóginn fremur byggjast  á afstöðu til sjókvíaeldis en afdráttarlausum stuðningi við hugmyndafræðilega meginreglu. Það er nýr pólitískur veikleiki.

Hjálp við sérhagsmunagæslu í stóra samhenginu

Í ferðum sínum um landið virðist forysta Samfylkingar hafa gefið forystumönnum í sjávarútvegi tryggingar fyrir því að þeir verði áfram í skjóli með ótímabundinn nýtingarrétt.

Með þessu hverfur Samfylkingin frá þeirri stefnu, sem hún hefur fylgt frá upphafi í þessum efnum. Eða leggur hana á hilluna.

Viðreisn er því eini flokkurinn…

Viðreisn er því eini flokkurinn, sem ekki hefur hvikað frá þeirri hugmyndafræði, sem mótuð var í auðlindanefndinni.

Það eru mikil pólitísk umskipti þegar stærsti flokkur landsins kúvendir stefnu sinni í svo stóru grundvallarmáli. Það hjálpar stjórnarflokkunum við sérhagsmunagæsluna í stóra samhenginu.

Kosningar um prinsippmál

Tilraun stjórnarflokkanna gefur ærið tilefni til þess að gera prinsippið um tímabundinn nýtingarrétt að kosningamáli.

Útfærsla á þessari hugmyndafræðilegu grundvallarreglu getur verið með ýmsu móti. Fyrning er ein leið. Tillögur Sigurðar Inga Jóhannssonar, sem Sjálfstæðisflokkurinn stöðvaði í ríkisstjórn Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, eru dæmi um aðra.

Aðalatriðið er að kjósendur fái tækifæri í næstu kosningum til að taka afstöðu til flokka eftir því hvort þeir eru með eða á móti prinsippinu. Náist meirihluti fyrir því má örugglega finna lausn á útfærslunni.

Greinin birtist fyrst á eyjan.is. Fyrirsögnin er Miðjunnar.


Auglýsing

Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: