Frestur Katrínar er á enda. Við vitum svo sem öll hvað hún hyggst gera. Varla er hún að funda með Bjarna og Sigurði Inga nema mikið liggi við. Sem verður kannski síðasti fundur þessa tríós.
Mogginn segir að Bjarna beri að fá stól forsætisráðherra. Þar segir einnig að Sigurð Inga langa meira en lítið að verða forsætisráðherra. Enda vanur að leysa af sem slíkur.
Staðan breytist dag frá degi. Í gær bættist Jón Gnarr við í frambjóðendahópinn. Leið Katrínar verður sífellt flóknari.
Jón Gnarr hefur breytt miklu. Baldri Þórhallssyni gekk vel að safna meðmælendum. Setti hraðamet. Jón Gnarr bætti metið um tvær mínútur. Og er því methafi núna.
Katrín á enga leið til baka. Lífið er ekki þannig. Hún hefur þegar stigið mikilvægt skref og er byrjuð að grafa undan eigin stöðu. Einstaklega klaufalegt upphaf að kosningabaráttu. Katrín má ekki eiga afturkvæmt í forsætisráðuneytið. Hún hefur brennt brýr að baki sér.
En hvað verður um Vinstri græn?
Mogginn segir að Svandís Svavarsdóttir verði pólitískur leiðtogi Vinstri grænna. Ekki varaformaðurinn, Guðmundur Ingi Guðbrandsson. Undir það er tekið.
Á slitrótti dagskrá Alþingis verður drjúgum tíma varið í vantrauststillögu á hendur Svandísi Svavarsdóttur. Ef rétt er að ríkisstjórnin er að leysast upp þá er allsendis óvíst hvort þingmenn núverandi meirihluta verji hana vantrausti.
Katrín hefur einungis leikið afleiki til þessa í undirbúningi fyrir forsetakosningarnar. Staðan versnar og flækist á hverjum degi.