Efnahagsmál
Leiðari Moggans fjallar um hugsanlega sölu á eignarhlut ríkisins í Íslandsbanka. Þar er talað um að hugdanlega fáist eitt hundrað milljarðar fyrir ríkishlutinn. Í leiðaranum er fjallað um að Sigmundur Davíð Gunnlaugsson treysti ekki fjármálaráðherra fyrir öllum þessum peningum, rétt eins og kom fram í frétt hér á Miðjunni.
Það er annað mál. Nú ætla ég að vitna orðrétt í leiðara Moggans:
„En það er erfitt að eyrnamerkja fé þó að það sé stundum reynt og ef þeir milljarðar sem koma í gegnum þessa sölu fara í niðurgreiðslu skulda skiptir öllu að ekki verði til dæmis dregið úr annarri skuldaniðurgreiðslu eða nýjum skuldum eða skuldbindingum safnað í staðinn.“
Ekki er loku fyrir það skotið að Mogginn óttist að fjármálaráðherra fari á eyðsluskeið.
„Í því sambandi verður ekki framhjá því litið að ófáar, og ekki allar smáar, hugmyndir hafa komið fram að undanförnu um ný opinber útgjöld, ýmist í samstarfi við sveitarfélögin eða ekki. Í ljósi stöðu ríkisfjármála, björgunar á heilu sveitarfélagi, sem enginn sá fyrir en er óhjákvæmileg, og nýgerðra kjarasamninga, sem reynast munu ríkinu kostnaðarsamir þó að ástæða sé til að fagna friði á vinnumarkaði, er sjálfsagt að stöðva aðrar hugmyndir um ný útgjöld. Um þetta þyrfti að ná samstöðu í ríkisstjórn og á þingi. Það mundi auka stuðning við söluna enda lítið fengið með því að selja fjölskyldusilfrið til að fjármagna skammtímaneyslu.“
(Sterkur grunur er um að Davíð Oddsson hafi ekki skrifað leiðarann.)