- Advertisement -

Ljótir menn og lúalegir!

„Íslenzki refurinn, heimskautarefurinn, er sérstök tegund refs, minni og öðruvísi gerður en rauðrefurinn, og kom hann til Íslands á ísöld. Hann er fyrsta náttúrulega spendýrið hér. Frumbygginn!“

Ole Anton Bieltvedt.

Ole Anton Bieltvedt skrifar:

Samfélag Í minni síðustu grein skrifaði ég um þá menn, sem liggja í því að drepa saklaus og varnarlaus dýr, hreindýr, líka kýr frá ósjálfbjarga kálfum, að gamni sínu, án nokkurrar raunverulegrar þarfar. Til að fá kikk í sína brengluðu sál og útrás fyri sína lágkúrulegu drápsfýsn, eins og ég sé það.

Nú vil ég fjalla aðeins um þá, sem drepa saklaus og varnarlaus dýr, oft af ótrúlegri grimmd og miskunnarleysi, líka án nokkurrar raunverulegrar þarfar, af peningalegri græðgi. Fégirni. Tek ég þar dæmi frá síðasta ári:

Þú gætir haft áhuga á þessum

18. janúar í fyrra birtist frétt á mbl.is undir fyrirsögninni „Skaut sextán tófur á einni nóttu“. Með fréttinni fylgdi stór mynd, sem sýnir þessi fallegu dýr, flest rétt hálfsvetrar, sum brún, önnur hvít, skotin og dauð. Líflaus hræ.

Í texta kemur fram, að refakyttan, Birgir Hauksson, hafi líka beitt haglabyssu við drápið. Geta þá dýr líka særst, án þess að drepast strax, komizt undan veiðimanni, og kvalist svo til dauða, líka af blýeitrun, ef blýhöglum er beitt (er reyndar bannað, en ekki virt af öllum).

Blaðamaður fjallaði um málið að því er virðist af hrifningu og gleði, fagnandi. Það mætti ætla, að hann telji þetta dráp góða frammistöðu, jafnvel nokkra hetjudáð. Í texta segir hann líka, að Birgir hafi milli jóla og nýárs skotið yfir fjörutíu tófur. Líka greinilega gott mál. Vel gert!

Aðfarir refaskyttunnar voru þær, að hann hafði komið sér upp upphituðu skothýsi, síðan lagði hann út kjöt, en „tíðin hefur náttúrulega verið erfið fyrir hana (tófuna). Allt pikkfrosið og þá komast þær síður í agn“, sagði Birgir, og fara þá glorsoltin dýrin auðvitað í björgina, þó þau kunni að skynja hættu.

„Sjálfur segist hann (Birgir) hafa ímugust á grenjavinnslu. Þar sé um að ræða miðaldaaðferðir, sem séu í ætt við dýraníð“, sagði blaðamaður. Nú vildi hins hins vegar svo til, að 9. júlí 2022 birtist frétt í Morgunblaðinu, með stórri mynd, en undir henni stendur „Mikley (í Skagafirði) Birgir Hauksson við greni sem hann vann ásamt Kára Gunnarssyni í bæjarhólnum á gömlu eyðibýli“. Mikil heilindi og ímugustur það!

Það er nú rétt, að upplýsa lesendur um það helzta, er varðar tófuna:

Íslenzki refurinn, heimskautarefurinn, er sérstök tegund refs, minni og öðruvísi gerður en rauðrefurinn, og kom hann til Íslands á ísöld. Hann er fyrsta náttúrulega spendýrið hér. Frumbygginn!

Nú eru minna en 300 heimskautarefir á hinum Norðurlöndunum. Eru þeir þar alfriðaðir. Engin hætta stafar af heimskautarefnum fyrir umhverfi, lífríki eða búfénað, enda er hann lítið dýr, rétt eins og köttur.

Pólarrefurinn lifir á berjum, þangi, dýrahræjum í fjöru og á landi, eggjum, hagamúsum, lirfum, flugum, nagdýrum og fuglum. Alæta. Hann hefur verið eðlilegur hlekkur lífskeðjunnar hér í tíu þúsund ár.

Einhver brögð voru að því, að heimskautarefurinn réðist á nýfædd lömb, meðan ær voru látnar bera úti. Einkum auðvitað í harðæri.

Bændur hafa hins vegar um áratuga skeið látið ær sínar bera í húsi, og varð það endir þess, að refurinn kæmist í bjargarlaus lömb. Af einhverjum ástæðum hafa ýmsir þó haldið áfram að úthrópa og ofsækja heimskautarefinn, dýrbítinn, eins og af gömlum vana.

Umhverfisstofnun hefur haldið úti fyrirspurnum um skaða af völdum refs, hjá sveitarfélögum og bændasamtökunum, frá 2015, og hafa tilkynningar um skaða nær engar verið. Einstaka tilkynning hefur borizt um tjón í æðarvarpi, sem alla jafnan er þó vel vaktað af eigendum og tryggt.

Samhengi milli þess veiðiæðis, sem er í gangi gegn heimskautarefnum, og þess tjóns, sem hann veldur, er því ekkert, enda hefur Umhverfisstofnun og umhverfisráðherra löngu viðurkennt, að forsendur fyrir núverandi refaveiðum séu brostnar.

Flestir barðir til dauða með steini eða skotnir í tætlur með haglabyssu.

Ofsóknirnar gegn refnum halda þó áfram, eins og stjórnlaus drápsmaskína, í nafni Umhverfisstofnunar og umhverfisráðherra, sem sjálfur er veiðimaður, og gerir ekkert með þetta.

Síðustu tvo áratugi voru 113.563 refir drepnir, þar af 38.420 litlir tófuhvolpar, yrðlingar. Flestir barðir til dauða með steini eða skotnir í tætlur með haglabyssu.

Síðasta áratug greiddu sveitarfélög milljarð til veiðimanna fyrir drápið á refum. 100 milljónir á ári. 2 milljónir á viku. Af almannafé.

Auðvitað eru það veiðimennirnir, drápspremían til þeirra, sem halda þessari stjórnlausu drápsmaskínu gangandi.

Versti hluti málsins eru grenjaveiðarnar. Yrðlingar fæðast um mánaðamótin apríl/maí, og hefjast grenjaveiðar í byrjun júni. Læða og steggur lifa saman ævilangt, ef bæði lifa, og er steggur í því á daginn að færa björg í bú, meðan læðan gætir og fæðir hvolpa.

Veiðimenn leggjast við greni, bíða komu steggs og skjóta. Þegar matarbirgðir þrjóta í greni, neyðist læða til að yfirgefa yrðlinga í fæðuleit. Þá er hún skotin. Eftir eru þá litlir yrðlingar, 4-5 vikna gamlir, eins og litlir hundshvolpar, og þegar hungurinn sverfur að, freista þeir þess, að fara úr greni. Þá eru þeir handsamaðir og barðir til dauða með steini eða skotnir.

Til baka til fyrirsagnar og inngangs þessarar greinar:

…sem er vinsæl fullyrðing veiðimanna.

Blaðamaður hefur ekkert fyrir því, að kynna sér þá staðreynd, að refurinn hefur engu teljandi tjóni valdið um langt skeið, hann lætur líka telja sér trú um, að refurinn sé við það að eyða eða útrýma mófugli og varpfugli, sem er vinsæl fullyrðing veiðimanna.

Hann leiðir þá ekki hugann að því, að refurinn kom hingað löngu áður en landið byggðist, og, hví var refurinn þá ekki búinn að útrýma öllum mó- og varpfugli við landnám?

Þetta eru fyrir mér einfeldnisleg vinnubrögð.

Ég vil kalla þann mann, sem drepur þennan frumbyggja landsins, dýr, sem engum teljandi skaða veldur, í þessum mæli og á þennan hátt, væntanlega mest veiðipremíunnar, peninganna, vegna, nema hann hafi líka gleði af drápinu, ljótan og lúalegan.


Auglýsing

Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: