Alþingi
„Á meðan það er ekki sjálfstætt markmið Pírata að ríkið eigi áfram hlut í Íslandsbanka þá er það alveg skýrt af okkar hálfu að þessi ríkisstjórn er rúin trausti til að selja þennan banka ef hún hafði það nokkru sinni.“
„Að eiga banka eða eiga ekki banka. Um það snýst tilvistarkrísa ríkisstjórnarinnar þennan daginn, en því miður er það svo að þessi ríkisstjórn virðist hvorki geta átt banka né selt banka án þess að klessukeyra á það litla traust sem eftir situr hjá þjóðinni gagnvart fjármálamarkaði á Íslandi. Þetta mál og Íslandsbankamálið eru lifandi vitni þess að það þarf nýja stjórn og nýja stefnu í þessum málum sem öðrum hér á landi,“ sagði Þórhildur Sunna Ævarsdóttir á Alþingi.
„Stefna Pírata er skýr. Landsbankinn skal vera í eigu þjóðarinnar áfram en við viljum ekki bara að Landsbankinn hagi sér eins og hvaða banki sem er heldur að eigendastefna ríkisins endurspegli samfélagsleg markmið, ekki að hámarka arð heldur þrýsta markaðinum til að verða betri með því að bjóða góða þjónustu, hagstæð lán og fjárfesta af ábyrgð. Útvíkkun á þeim sjónarmiðum yfir í tryggingafélög gæti líka verið til góðs enda er um eðlislíka starfsemi að ræða sem öll heimili verða að geta stólað á og betra að þar sé aðili á markaði sem starfar eftir eigendastefnu um almenningshagsmuni frekar en gróðasjónarmið. En til þess þarf eigendastefnan að vera samfélagsmiðuð,“ sagði Þórhildur Sunna.
„Píratar munu því leggja til þingsályktunartillögu sem er ætlað að gera fjármálaráðherra skylt að hefja sem fyrst vinnu við viðauka við almenna eigendastefnu fyrir hvert félag í eigu ríkisins sem fjalla á á ítarlegan hátt um atriði sem ekki eiga heima í almennri eigendastefnu. Meðal þess sem viðauki við almenna eigendastefnu myndi skýra væri ástæða eignarhalds ríkisins á viðkomandi fyrirtæki og markmið með eignarhaldinu, hvert hlutverk viðkomandi fyrirtækis er og ekki síður hvaða hlutverki viðkomandi fyrirtæki á ekki að gegna.
Á meðan það er ekki sjálfstætt markmið Pírata að ríkið eigi áfram hlut í Íslandsbanka þá er það alveg skýrt af okkar hálfu að þessi ríkisstjórn er rúin trausti til að selja þennan banka ef hún hafði það nokkru sinni. Sömuleiðis kemur það ekki til greina af hálfu Pírata að selja hluti í Íslandsbanka án þess að um það náist víðtæk samfélagsleg sátt. Tillögur ráðherra um að fella sérstakar hæfisreglur stjórnsýslulaga úr gildi í næsta söluferli sýnir svo bersýnilega að ríkisstjórnin er ekki einungis ófær um að selja banka heldur er hún algjörlega vanhæf til þess að læra af eigin mistökum.
Það er komið nóg af fúski, virðulegi forseti. Það er komið nóg af innantómum hótunum, skeytasendingum ráðherra á milli og fórnarlambsvæðingu ráðherra gagnvart ábyrgð þeirra sjálfra á því að stjórna landinu. Það er komið meira en nóg af þessari svokölluðu ríkisstjórn,“ sagði Þórhildur Sunna Ævarsdóttir.