Alþingi
„Ég ætla hér að ræða hvernig stjórnvöld leggja stein í götu þeirra sem hyggjast afla sér lífsviðurværis í dreifbýlinu. Norður í landi við ysta sæ er lítill bær sem hefur nánast misst allar aflaheimildirnar. Fólkið hefur þurft að flytjast í burtu og einn þeirra sem fluttist í burtu er ástsæll formaður Flokks fólksins. Því er fólkið þar að leita nýrra leiða og það er reynt með ýmsu móti. Það var leitað til Alþingis og það hafa komið nokkur störf þangað en þau hafa verið dregin til baka,“ sagði Sigurjón Þórðarson. Flokki fólksins, á Alþingi fyrr í dag.
„Fyrir nokkru sótti þar fiskvinnsla um takmarkað tilraunaleyfi til að nýta þara sem er í ómældu magni úti fyrir ströndinni. Það magn sem fiskvinnslan hugðist sækja var það lítið að það hefði aldrei sést á þeim þaraskógi sem þar er fyrir utan. Auðvitað hefði maður haldið að svona verkefni hefði verið tekið fagnandi í matvælaráðuneytinu. Svo var ekki. Viðkomandi var dreginn á svarinu og svo þegar það loksins kom var það afsvar. Maður spyr sig: Hvað má í þessum litlu byggðum ef það má ekki einu sinni nýta þara?“
„Þetta er alveg stórundarlegt. Við vitum það að fólkið í dreifbýlinu, í sjávarbyggðunum, má ekki vera með nokkra öngla í færi og draga fisk úr sjó vegna þess að stjórnarflokkarnir, Vinstri grænir og Sjálfstæðisflokkurinn, eru hér að passa fiskimiðin fyrir stórkapítalistana í landinu. Það er svolítið einkennilegt að Vinstri grænir virðast vera harðastir í þeirri hagsmunagæslu og ég skora hér með á formann Vinstri grænna, sem situr nú um tíma a.m.k. í matvælaráðuneytinu, að sýna örlitla mildi í þessari stjórnun og koma á móts við fólkið í Ólafsfirði og leyfa því að nýta þara. Er hægt að ganga lengra í ofstjórnun? Ég spyr, herra forseti.“