- Advertisement -

Þórdís fjármálaráðherra efast um kenningar Nóbelsverðlaunahafans

„Hann sagði það einnig staðreynd að fyrirtækin næðu auknum vaxtakostnaði til baka með því að velta honum beint út í vöruverð til neytenda sem aftur hækkaði verðbólguna.“

Ásthildur Lóa Þórsdóttir.

Alþingi „Umræddur hagfræðingur er gríðarlega áhugaverður maður með mikla reynslu og það er nú fegurðin í því að vera með bæði akademískt frelsi og málfrelsi að geta komið hingað og haldið málþing og átt samtöl um þessi mál sem eru auðvitað gríðarlega flókin og marglaga. Það er algerlega þannig að peningastefna er ekki verkfræðilegt verkefni heldur mjög sálrænt líka og marglaga,“ sagði Þórdís K.R. Gylfadóttir á Alþingi eftir að Ásthildur Lóa Þórsdóttir, Flokki fólksins, vitnaði til Joseph Stiglitz nóbelsverðlaunahafa í hagfræði.

Ásthildur Lóa sagði: „Hann sagði það einnig staðreynd að fyrirtækin næðu auknum vaxtakostnaði til baka með því að velta honum beint út í vöruverð til neytenda sem aftur hækkaði verðbólguna. Að lokum sagði hann að þótt vissulega væri verðbólgan á niðurleið þá væri það ekki vegna hækkunar stýrivaxta. Því ættu seðlabankar engar þakkir skildar fyrir sitt vaxtablæti. Til að draga saman erindi nóbelsverðlaunahafans þá hafa seðlabankar heims of þrönga sýn á verðbólguna og hafa aukið vandann með vaxtahækkunum sínum.

Ég spyr því hæstvirtan fjármála- og efnahagsráðherra: Er ekki kominn tími til að ríkisstjórnin axli ábyrgð sína og sjái til þess að snúið verði af þessari glötunarbraut grimmilegra vaxtahækkana áður en ástandið verður enn verra? Þarf ekki einhverja varnagla inn í lög um sjálfstæði Seðlabankans svo að fólk sem enginn hefur kjörið og er bersýnilega á rangri leið geti ekki sett tugþúsundir í jafn mikil vandræði og raun ber vitni?“

Þú gætir haft áhuga á þessum

Það hefur leitt til þess að mikill aukinn fjöldi íbúða hefur komið á markað núna.

Gefum Þórdísi fjármálaráðherra orðið á ný:

„Hins vegar finnst mér mikilvægt að við höldum því til haga að verðbólga á Íslandi er frábrugðin þeirri sem er í Evrópu sem var drifin áfram einmitt af orkukrísu sem var ekki hér. Hún á meira skylt við verðbólgu í Bandaríkjunum þar sem eftirspurn hefur drifið verðbólguna áfram. Vextir eru rétt tæki til þess og þeir eru sannarlega að virka og það hefur í för með sér að þeir líka kæla hagkerfið og þar með þann hluta sem snýr að uppbyggingu fasteigna. Hins vegar er vaxtastigið líka þannig að það hefur greinilega verið mikill hvati hjá þeim sem voru næstum því búnir að klára íbúðir að klára þær vegna þess hversu háir vextir eru. Það hefur leitt til þess að mikill aukinn fjöldi íbúða hefur komið á markað núna sem Húsnæðis- og mannvirkjastofnun hafði ekki áttað sig á áður en hefur gert nú. En það er sannarlega rétt að það kælir hagkerfið. Það sem umræddur hagfræðingur segir er alveg í andstöðu við meginþorra hagfræðikenninga en aftur, þetta er ekki verkfræðilegt verkefni. Það sem er verið að gera á Íslandi er leið allra vestrænna ríkja til að bregðast við verðbólgu. Ég er alltaf til í samtal um það hvaða aðrar leiðir eru færar en ég er þó ekki til í að vega að sjálfstæði Seðlabankans,“ sagði fjármálaráðherra Íslands.

-sme


Auglýsing

Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: