- Advertisement -

Við sjáum allt of oft, að pólitískspilling er stórt vandamál hjá fjölda sveitarfélaga

Marinó G. Njálsson skrifar:

Mætti halda að bæjarstjóranum á ofurlaununum hafi fundist ósanngjarnt að hann fengi ekkert.

Bæjarstjórinn í Ölfusi segir að vegið sé að sjálfsákvörðunarrétti sveitarfélaganna.

Efnahagsmál Áhugavert er að fylgjast með kveini frá nokkrum bæjarstjórum á ofurlaunum um það að breiðfylkingin hafi sett fram kröfu um ókeypis máltíðir i leik- og grunnskólum. Eitthvað sem gæti nýst flestum þeim heimilum sem eru með hvað hæstu útgjöldin, þ.e. heimili með börnum. Það finnst bæjarstjórnum í Ölfusi ekki gott, því þá njóta hin heimilin (sem ekki eru með kostnað vegna barna á leik- og grunnskólaaldri) ekki góðs af lækkuninni. Hvers vegna áttu önnur heimili að njóta lækkana sem renna áttu til barnafólks, þegar þessi heimili eru ekki með kostnað vegna barna á leik- og grunnskólaaldri? Mætti halda að bæjarstjóranum á ofurlaununum hafi fundist ósanngjarnt að hann fengi ekkert.

Mig langar að benda á, að sveitarstjórnir voru beðnar um að fara ekki fram með samþykktar hækkanir á gjaldskrám sínum um áramót til að liðka fyrir kjarasamningum stöðugleika. Þau ákváðu samt að gera það . Sum, já aðeins sum, sögðust íhuga að draga úr hækkunum eftir að niðurstaða kjarasamninga væri ljós. Þegar á viðræðurnar leið, var ljóst að þetta voru orðin tóm og ekkert benti til þess að þau ætluðu að draga neitt til baka.

Bæjarstjórinn í Ölfusi segir að vegið sé að sjálfsákvörðunarrétti sveitarfélaganna. Hugsanlega er það þannig, en sveitarfélögin hefðu þá átt að leggja fram sínar hugmyndir um aðkomu að kjarasamningunum í nóvember, þegar fyrst var leitað til þeirra. Nei, þau ákváðu ÖLL SEM EITT, að leggja EKKERT til. Engar hugmyndir voru lagðar fram, aðrar en „við sjáum til“. Þess vegna varð fólkið, sem sat við samningsborðið, að koma með hugmyndirnar.

Verkalýðsleiðtogar nánast lögðust á hnén…

Höfum í huga, að hækkanir ríkis og sveitarfélaga í byrjun árs eru valdar af yfir 70% af verðbólgunni fyrstu tvo mánuði ársins. Ef ekki væri fyrir þessar hækkanir, mældist verðbólgan núna undir 6,0% og við værum að sjá fram á lækkun vaxta Seðlabankans síðar í þessum mánuði. Í staðinn munu vextir líklega haldast óbreyttir og fjarlægur möguleiki er á að þeir hækki. Allt vegna þess, að ríki og sveitarfélög „urðu“ að fjölga gjöldum og hækka þau gjöld og þær gjaldskrár sem voru til staðar.

Verkalýðsleiðtogar nánast lögðust á hnén og grátbáðu sveitarfélögin að gera þetta ekki. Nei, það var ekki hægt. Þau „urðu“ að hækka og ætluðu svo sannarlega ekki að fara að kröfum fólksins á lægstu laununum, enda eru Sjálfstæðismenn í forsvari margra þessara sveitarfélaga og það er ekki í grunngildum Sjálfstæðisflokksins (samkvæmt mínum skilningi á orðum bæjarstjórans í Ölfusi) að liðka fyrir kjarasamningu láglaunafólks. Þannig að sé verið að vega að sjálfsákvörðunarrétti sveitarfélaga, s.s. í Kópavogi, Ölfusi, Garðabæ og víðar (þó aðeins bæjarstjórinn í Ölfusi hafi notað þetta orðalag, þá má lesa á milli línanna hjá hinum), þá er það bara vegna þess, að þessi sveitarfélög og nokkur önnur, sem stýrt er af bæjarstjórum á ofurlaunum, ætluðu ekki að taka þátt í stöðugleikanum.

Ég skoraði á sveitarfélögin fyrir einhverjum mánuðum að draga samþykktar hækkanir til baka áður en þær kæmu til framkvæmda. Ég skoraði líka á ríkið og fyrirtæki sem höfðu verið ötul við hækkanir. Benti á, að spurningin væri að fresta hækkunum um að hámarki þrjá mánuði, þannig að yrðu kjarasamningar ekki á þeim nótum sem lagt var upp með, þ.e. hógvægra launahækkana og með stöðugleika að markmiði, þá gætu hækkanirnar bara tekið gildi 1. apríl. Nei, það var ekki hægt, vegna þess að fyrirtækin, sveitarfélögin og ríkið ætluðu ekki að taka neina áhættu og alls ekki sýna frumkvæði. Hefðu þau farið eftir ráðleggingum mínum væri verðbólgan komin undir 6,0% og þarfir fyrir hækkanir væru minni. Vaxtalækkanir væru síðan rétt handan við hornið. Aðeins 1,0% vaxtalækkun dugar til að greiða ansi stóran hluta af útgjöldum vegna kjarasamninganna.

„Ef þú strýkur mér, þá mun ég strjúka þér“, viðgengst víða.“

Núna mun það hins vegar taka okkur heilt ár að losna við þessar óþörfu hækkanir út úr verðbólgutölunum. Í heilt ár verður viðmið Seðlabankans verðbólga sem er um 1% hærri en hefði getað orðið. Í heilt ár verður lækkun vaxtanna minni, en efni hefðu staðið til. Í heilt ár mun þjóðfélagið líða fyrir skort á áræðni og framsýni þeirra sem bara „urðu“ að hækka gjöldin sín og verð á vöru og þjónustu og „gátu ekki“ beðið með það í 2-3 mánuði, þegar niðurstaða kjarasamninga var ljós.

Já, gleymdi einu. Af þessum sökum hækkuðu eftirstöðvar 50 m.kr. verðtryggðs láns um 500.000 kr. og bara sú hækkun heggur af kauphækkuninni til heimila með slík lán.

Snúist sjálfsákvörðunarréttur sveitarfélaga um að hunsa heildarhagsmuni íbúa sveitarfélaganna, þá er bara besta mál að þau missi þann rétt. Ég er síðan alveg handviss um, að bæjarstjórarnir munu hver um sig semja, með vísan til sjálfsákvörðunarréttarins, um „leiðréttingu“ sinna launa sem verður langt umfram það sem láglaunafólkið fær út úr kjarasamningunum. Hef aldrei geta skilið hvers vegna laun bæjarstjóra/sveitarstjóra í nokkur þúsund manna sveitarfélagi þurfi að vera vel yfir 2 m.kr. á mánuði. Þau eiga í besta falli að vera tvöföld laun þess starfsmanns sveitarfélags sem er á lægstu laununum. Að vera bæjarstjóri er oftast tengt pólitík, ekki hæfi viðkomandi til að stjórna sveitarfélagi. Enda sjáum við allt of oft, að pólitískspilling er stórt vandamál hjá fjölda sveitarfélaga. „Ef þú strýkur mér, þá mun ég strjúka þér“, viðgengst víða.

Eitt í lokin, vegna orða bæjarstjórans í Ölfusi um að þetta sé sambærilegt og mismuna fólki eftir því hvort það er rétthent eða örvhent: Munurinn er hvort fólk eigi börn eða ekki. Enginn vísindaleg sönnun er fyrir því, að barneignir séu mismunandi milli örvhentra og rétthentra og óteljandi dæmi eru um að annað foreldri barns sé örvhent og hitt rétthent. Vona að þetta sé ekki sú rökhugsun, sem bæjarstjórinn notar við störf sín.

Greini birtist fyrst á Facebooksíðu Marinós. Hún er birt hér með leyfi höfundar.


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: