Alþingi
„Ég er að verða svo syfjuð að ég man ekki eiginlega af hverju ég kom hingað en er að hugsa um að láta það flakka,“ þannig byrjaði Inga Sæland á kvöldfundi um fjáraukalögin.
„Ég er með breytingartillögu við fjáraukann um að við fellum brott a-lið 1. gr. sem felur í rauninni í sér að þá um leið munum við ekki veita heimild til aukinnar erlendrar lántöku upp á 30 milljarða kr., enda hefur Flokkur fólksins ásamt fleirum talað vel og rækilega um það og skýrt þau sjónarmið undir rekstri málsins,“ sagði Inga og hélt svo áfram:
„Við höfum meira að segja komið með tillögur um það hvernig í rauninni væri hægt að afla þessa fjár án þess að vera með erlendar lántökur [Kliður í þingsal.] og okkur þykir eiginlega alveg nóg um að við skulum nú þegar vera að greiða um 117 milljarða á ári í vaxtagreiðslur. Við höfum t.d. talað um að hækka bankaskatt og okkur hefur fundist bankarnir vera aflögufærir svo ekki sé meira sagt til að taka þátt í þeim verkefnum sem fyrir okkur liggja, sem eru ærin. Þannig að ég hvet ykkur náttúrlega öll, eins og ég veit, þið eruð öll mjög glöð og ánægð í kvöld og ég veit að þið munuð alveg hiklaust styðja þessa breytingartillögu því að hún er alveg til fyrirmyndar.“