Alþingi
„Síðasta ár var heitasta ár í sögu mælinga. Skaðleg áhrif loftslagsbreytinga eru staðreynd og eiga sér stað um allan heim á hverjum einasta degi,“ sagði Andrés Ingi Jónsson Pírati í þingræðu í gær.
Hann hélt áfram: „Við og börnin okkar erum að líða fyrir aðgerðaleysi síðustu áratuga. Hvernig standa íslensk stjórnvöld sig? Í ár eru bein framlög til loftslagsmála 1,7 milljörðum lægri en á síðasta ári. Við það bætist að ríkisstjórnin ákvað að spara sér 4,8 milljarða þegar hún færði stuðning við rafbíla af einum lið yfir á annan, tók þessa 4,8 milljarða og ætlar væntanlega bara að nýta þá í almennan rekstur frekar en í baráttuna gegn loftslagsbreytingum sem eru að setja allt samfélagið í hættu næstu áratugina. Það er eins og ríkisstjórnin líti ekki á þetta sem brýnan vanda. Það birtist t.d. í því að loksins núna hillir undir það að aðgerðaáætlun í loftslagsmálum verði uppfærð en hún er frá árinu 2020. Það er spilað eftir löngu úreltri handbók uppi í Stjórnarráði en lagaskyldan er nefnilega sú að ráðherra þarf ekki að uppfæra nema á fjögurra ára fresti og hann ætlar að fullnýta sér allan þann frest sem hann getur. Sama er síðan með tölulegu markmiðin, þar virðist stefnan sett á að uppfylla bara lágmarkið. Vandinn er nefnilega að ég held að ríkisstjórnin sé farin að trúa spunanum.“
Andrés Ingi var ekki búinn: „Ég var á fundi hér við Austurvöll þar sem hæstvirtur umhverfisráðherra sagði að markmið stjórnvalda væru metnaðarfull, svo vægt væri til orða tekið. Markmið stjórnvalda eru einfaldlega sú ákvörðun sem var tekin sameiginlega innan Evrópusambandsins. Þau eru málamiðlun á milli mestu kolafíkla Evrópu og metnaðarfullu landanna, metnaðarfullu landanna sem við ættum að vilja miða okkur við og ganga lengra.
Núverandi ríkisstjórn mun nýta allar glufur til að ganga eins skammt og hún kemst upp með. Þá klagar upp á okkur hjá þinginu að taka spunann, afrugla hann og halda ríkisstjórninni við efnið, því að ekki gera stjórnarflokkarnir það.“