Óðir bílamenn sem skilja ekki af hverju þeir geta ekki farið sama rúntinn í miðbænum og farinn var árið 1972
Kolbrún Bergþórsdóttir, blaðamaður á Mogganum, skrifar skoðanagereinar í sunnudagsútgáfuna.
í nýjustu grein Kolbrúnar skrifar hún ákveðin gegn skoðunum Davíðs Oddssonar ritstjóra. Til dæmis þetta:
„Hörðustu andstæðingar meirihlutans, og sérstakir hatursmenn Dags B. Eggertssonar, eru óðir bílamenn sem skilja ekki af hverju þeir geta ekki farið sama rúntinn í miðbænum og farinn var árið 1972. Þeir kvarta stöðugt undan því að engin almennileg bílastæði séu í miðbænum þótt allir aðrir viti að það er allt sneisafullt af þeim. Þeir líta á göngugötur sem mikið böl og fullyrða að þær hafi steindrepið verslun í miðbænum. Svo halda þeir því fram að strætósamgöngur séu í verulegum ólestri þótt aldrei stígi þeir upp í strætó, enda telja þeir það langt fyrir neðan sína virðingu.“
Eins má finna þetta í greininni:
„Ekki er líklegt að þessi hópur einkabílasinna telji sig eiga sérstakt skjól hjá Einari Þorsteinssyni borgarstjóra, og mun vísast yfirfæra stæka andúð sína á Degi B. Eggertssyni á hann.“
Að lokum má lesa þetta:
„Reykjavík hefur breyst hin síðustu ár, að mestu til hins betra. Miðbærinn er dæmi um þetta. Hlemmur er til dæmis orðinn skemmtilegur staður og þar eru bekkir utan dyra og gróðri hefur verið plantað niður. Á sínum tíma talaði ákveðinn hópur um að með nýju skipulagi yrði Hlemmi endanlega rústað, en það hefur reynst hið mesta bull. Skólavörðustígurinn heillar ferðamenn sem aldrei fyrr og á Austurvöllur er alltaf jafn notalegur staður. Aðlaðandi göngugötur eru svo alls staðar, sem er mikill kostur á hverri borg. Svo má minna á að það er öllum hollt að ganga. Það er hreinsandi fyrir sálina, nýjar hugmyndir fæðast í heilabúinu og líkaminn fagnar hreyfingunni.
Það er allt í lagi með Reykjavík. Borgin er í góðum höndum meirihluta sem mun væntanlega halda áfram að vanda sig og reyna stöðugt að gera betur.“
Nú er að bíða og sjá hvort grein Kolbrúnar verði til þess að henni verði vísað á dyr, eða ekki.