- Advertisement -

GUÐFAÐIR EES KVADDUR – Jacques Delors látinn – minningargrein

Jón Baldvin Hannibalsson skrifar:

„EES: Delors baby.“ Þetta var titill á afmælisgrein, sem ég skrifaði í tímarit á vegum EFTA í tilefni af 15 ára afmæli EES.  Og þetta er satt.  Jacques Delors – forseti framkvæmdastjórnar ESB 1985-95 – sem nú er fallinn frá – var frumkvöðull að EES. Reyndar má segja, að Delors hafi verið frumkvöðull að því Evrópusambandi, sem við þekkjum í dag. Hvort tveggja – innri markaðurinn og peningamálasamstarfið (evran) – var hans verk. Þetta voru risavaxin verkefni á sínum tíma. Þau breyttu Evrópusamstarfinu varanlega og óafturkallanlega. Þar með hefur Delors reist sér pólitískan minnisvarða sem einn af hinum stóru frumkvöðlum Evrópusamrunans, ásamt Monet og Schuman.


Það voru aðallega tvær ástæður fyrir því að Delors bauð Norðurlöndum og Alparíkjunum tveimur – Sviss og Austurríki – til að vera með í samstarfinu frá upphafi. Önnur var sú að það var Evrópusambandinu mjög í hag, þar sem þessi „smáríki“ voru þýðingarmeiri viðskiptaaðili við Evrópusambandið en Bandaríkin og Japan til samans. Hin ástæðan var sú að Delors var evrópskur sósíal demókrat að grundvallarsannfæringu. Gro Harlem Brundtland, þáverandi forsætisráðherra Noregs, segir frá því í endurminningum sínum að Delors fundaði með henni, Olof Palme, Kalevi Sorsa og Bruno Kreisky , leiðtogum jafnaðarmannaflokka Finnlands og Austurríkis, til að undirbúa jarðveginn. Delors var aðdáandi hins norræna samfélagsmódels og vildi tryggja að það væri „félagsleg dimensjón“ að verki á innri markaðnum.


Við Steingrímur Hermannsson áttum mjög gott samstarf við Delors á nokkrum fundum. Það leyndi sér ekki að Delors var hugsjónamaður með yfirvegaða framtíðarsýn fyrir Evrópu, sem var hvorttveggja í senn: róttæk og raunsæ.

Þú gætir haft áhuga á þessum

 (Sjá https://jbh.is/?p=1197 )


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: