- Advertisement -

Þjóðarsátt

Vilhjálmur Birgisson:

Við munum koma til þessara viðræðna við Samtök atvinnulífsins og stjórnvöld full bjartsýni um að þetta krefjandi verkefni skili tilætluðum árangri.

Forsvarsmenn Starfsgreinasamband Íslands, Eflingar, Landssambands verslunarmanna og Samiðnar funduðu með Samtökum atvinnulífsins vegna komandi kjarasamninga á hinum almenna vinnumarkaði funduðu. Rétt er að geta þess að þessi landssambönd og félög skipa um 93% af ASÍ.

Það er ljóst að framundan er gríðarlega krefjandi verkefni, verkefni sem lýtur að því að ná niður verðbólgu og vöxtum og endurreisa hér tilfærslukerfin, það er að segja barnabætur, vaxtabætur og húsaleigubætur ásamt öðrum atriðum.

Framlag verkalýðshreyfingarinnar til að stuðla hér að lækkandi verðbólgu og vaxtakostnaði heimila verður fólgið í að samið verði til langs tíma með hófstilltum krónutöluhækkunum en til að þetta geti orðið að veruleika þarf aðkoma stjórnvalda og sveitarfélaga að verða umtalsverð. Einnig mun verslun og þjónusta og aðrir aðilar þurfa að axla sína ábyrgð með því að stilla öllum kostnaðarhækkunum á komandi mánuðum í eins mikið hóf og kostur er.

Þú gætir haft áhuga á þessum

Ég biðla til allra aðila að taka þátt í þessu verkefni…

Markmið og stefna þessara samninga eru eins og áður sagði byggð upp með sambærilegum hætti og gert var í þjóðarsáttinni 1990 þar sem meginverkefnið var að ná niður verðbólgunni og háu vaxtastigi. En til að það takist verða allir að axla sína ábyrgð og enginn mun geta spilað sig stikkfrí hvað það varðar.

Það er gríðarleg samstaða innan þessarar risastóru breiðfylkingar enda ljóst að ávinningurinn er umtalsverður ef okkur tekst að ná niður verðbólgu og vöxtum ásamt því að endurreisa hér tilfærslukerfin. Við munum koma til þessara viðræðna við Samtök atvinnulífsins og stjórnvöld full bjartsýni um að þetta krefjandi verkefni skili tilætluðum árangri.

Ég biðla til allra aðila að taka þátt í þessu verkefni og sérstaklega verslunar og þjónustu og vara þau við að varpa ekki gríðarlegum kostnaðarhækkunum á sínar gjaldskrár um næstu áramót enda mun slíkt framferði geta stefnt þessu verkefni um nýja þjóðarsátt í hættu ef slíkt raungerist.


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: