Marinó G. Njálsson:
Það að hafa grunn í einu af þessum þremur norrænu tungumálum er hins vegar forsenda fyrir því að komast inn í þessi samfélög, alveg eins og það auðveldar aðkomnum mikið að aðlagast íslensku samfélagi að geta talað málið.
Lausnin á PISA-vandanum er komin. Lokum leið íslenskra nema inn í norræna skóla!
Komin er sú uppástunga að hætta að kenna dönsku (sem þýðir þá líka sænsku eða norsku) sem skyldufag í grunnskóla.
Áður en sú leið verður valin, þá vil ég benda á, að fleiri Íslendingar eru við nám í Danmörku en nokkru öðru landi. Svíþjóð er ekki langt undan, en aðeins lengra er í Noreg. Munurinn á Norðurlöndunum og hinum enskumælandi (þ.e. aðallega Bretlandi og Bandaríkjunum) er að enn sem komið er, þarf ekki að greiða skólagjöld hvort heldur í grunnnámi á háskólastigi eða framhaldsnámi. Þess vegna sækir fólk þangað í nám. Allir sem hugsa, reyna eftir bestu getu að lágmarka þau námslán sem þarf að taka.
Ég er hins vegar nokkuð viss um, að langflestir sem fóru til náms í Danmörku ætluðu ekkert þangað, þegar þeir voru í 7.-10. bekk. Meira að segja fyrir hálfri öld þótti danska og Danmörk hallærisleg. Sú hugsun verður enn fjarlægari, verði Norðurlandamál ekki lengur skyldufag í grunnskóla. Það að hafa grunn í einu af þessum þremur norrænu tungumálum er hins vegar forsenda fyrir því að komast inn í þessi samfélög, alveg eins og það auðveldar aðkomnum mikið að aðlagast íslensku samfélagi að geta talað málið.
Ólíkt enskunni, þá eru Norðurlandamálin ekki mjög áberandi í þeim miðlum sem börnin sækja í. Mörg eru nánast jafn mikið mælandi á ensku og íslensku, þegar þau koma í grunnskóla og enskan er þeim svo töm, að heyri maður tvo unglinga tala saman á förnum vegi, þá heyrist ekki nema stöku íslensk orð inn á milli, þó auðvelt hefði verið að tjá sig á tungu landsins. Kannski hefði lesskilningurinn verið betri, ef textinn á PISA-prófinu hefði verið á ensku.
Ég hef ekki komið að kennslu í 16 ár og veit því ekki hvernig er staðið að kennslu í dag. Auk þess var ég við kennslu í framhaldsskóla. En spurningin, sem ég spurði oft, þegar ekki gekk nógu vel, var hvað ég gæti gert betur og hvað nemendurnir gætu gert betur. Svo er að sjálfsagt að athuga, hvort nemendunum sé ekki bara alveg sama, þó niðurstaðan hafi skotið þeim eldri skelk í bringu. Hefur einhver spurt þá?
Greinina birti Marinó á eigin Facebooksíðu. Greinin er birt hér með góðfúslegu leyfi höfundar.