Alþingismaðurinn Björn Leví Gunnarsson vill að Ísland slíti stjórnmálasambandi við Ísrael og setji að auki á viðskiptabann við landið.
Í grein hans í Mogganum í dag segir:
„Hinn 9. nóvember síðastliðinn samþykkti Alþingi Íslendinga ályktun sem kallaði eftir tafarlausu vopnahléi á Gasasvæðinu og fordæmdi allar aðgerðir Ísraels sem brjóta gegn alþjóðalögum! Öryggisráð Sameinuðu þjóðanna samþykkti einnig ályktun um mannúðarhlé hinn 15. nóvember. Ályktunin, sem er bindandi fyrir aðildarríki, hefur verið algjörlega hunsuð af Ísrael.
Frá því að þessar ályktanir voru samþykktar hefur Ísrael haldið áfram linnulausum árásum á saklausa borgara Palestínu, drepið þúsundir til viðbótar og gjöreyðilagt innviði sem verndaðir eru samkvæmt alþjóðalögum. Yfirlýsingar ísraelskra ráðamanna benda til einbeitts brotavilja gegn alþjóðalögum.
Okkur hryllir við þeim fjöldamorðum og vanvirðingu gagnvart mannslífum sem eiga sér stað ásamt þeim augljósu stríðsglæpum sem Ísrael fremur á Gasa. Á sama tíma hefur ofbeldi í garð Palestínufólks á Vesturbakkanum, jafnt af hálfu ísraelska hersins sem og landtökufólks, vaxið til muna á síðustu dögum og vikum.
Mikilvægt er að íslensk stjórnvöld taki nú skref til að fylgja eftir ályktun Alþingis og öryggisráðsins. Hvers konar diplómatískt samstarf við ísraelsk stjórnvöld sendir þau skilaboð til Ísraelsríkis að þjóðernishreinsanir þeirra séu ásættanlegar. Að sama skapi er samvinna í alþjóðlegum viðskiptum við Ísrael fjárhagslegur stuðningur við landrán þeirra, hernám og stríðsglæpi. Á meðan Ísland tekur ekki skýra afstöðu og fylgir eftir ályktun sinni með kröfu um vopnahlé í árásum Ísraelsríkis á Palestínu með markvissum aðgerðum og krefst þess að ríkið fylgi alþjóðalögum, þá ber Ísland óbeina ábyrgð á þeim fjöldamorðum sem eiga sér nú stað í Palestínu og gerir okkur öll samsek stríðsglæpum.
Ég kalla því eftir að slitið verði tafarlaust á stjórnmálasamband við Ísrael og jafnframt verði sett á viðskiptabann þar til Ísrael
a) stöðvar hernám og nýlendustefnu á öllu arabísku landi sem hernumið var í júní árið 1967 og fjarlægir aðskilnaðarmúrinn;
b) viðurkennir grundvallarréttindi þeirra borgara í Ísrael sem teljast Palestínu-arabar og veita þeim full réttindi á við aðra borgara; og
c) virðir, verndar og stuðlar að réttindum palestínskra flóttamanna til að snúa aftur til sinna heimkynna og til sinna eigna, eins og samþykkt Sameinuðu þjóðanna nr. 194 gerir ráð fyrir.
Slítum stjórnmálasambandi við Ísrael – viðskiptabann strax!“