Vilhjálmur Birgisson:
Það er ekki hægt að segja að sveitarfélögin hafi svarað þessu ákalli verkalýðshreyfingarinnar og nægir að nefna að Hafnafjarðabær hækkaði 1. nóvember skólamáltíðir um 33% og um 19% hækkun á fæðisgjaldi í leikskólum.
Vinnumarkaður
Við erum öll á sama „báti“ er öskrað á okkur í verkalýðshreyfingunni og þið verðið að „sýna“ skynsemi í komandi kjarasamningum ef við eigum að ná niður verðbólgunni! Enda er verðbólgan launafólki um að „kenna“ er öskrað úr öllum áttum.
Við höfum sagt ef við erum öll á sama „báti“ þá verða stjórnvöld, sveitarfélög, verslun og þjónusta, tryggingarfélög, orkufyrirtæki og í raun allir að halda kyrfilega aftur af verðlagshækkunum og hækka gjaldskrár um ekki meira en 2,5% á næsta ári.
Við höfum sagt að við erum til í að gera langtímasamninga í anda lífskjarasamninga ef allir taka þátt og ráðist verður hér í kerfisbreytingar á fjármálakerfinu ásamt öðrum atriðum er lúta að hagsmunum launafólks, neytenda og heimilanna.
Það er ekki hægt að segja að sveitarfélögin hafi svarað þessu ákalli verkalýðshreyfingarinnar og nægir að nefna að Hafnafjarðabær hækkaði 1. nóvember skólamáltíðir um 33% og um 19% hækkun á fæðisgjaldi í leikskólum.
Ég hef fengið vitneskju um 20% hækkun á skólamáltíðum í grunnskólum hér á Akranesi. Sveitarfélög eru nú þegar byrjuð að ráðast af fullum þunga á barnafjölskyldur sem hafa þurft að taka á sig kostnaðarhækkanir á liðnum misserum úr öllum áttum. Enda liggur fyrir að neytendur, launafólk og heimili eru að kikna undan stórauknum álögum á öllum sviðum.
Það er ljóst ef það á að níðast enn frekar á heimilum þessa lands í formi kostnaðarhækkana þá stefnir í blóðug verkfallsátök á nýju ári. Til að forða frá því verður að verða alger stefnubreyting hjá sveitafélögunum, stjórnvöldum, verslun og þjónustu og taka verður á okurvöxtum fjármálakerfisins.
Eitt er víst að ég er alls ekki bjartsýnn á framhaldið því mér finnst skilningsleysi áðurnefndra aðila á alvarleikanum á stöðu launafólks, neytenda og heimila ekki vera upp á marga fiska eins og kostnaðarhækkanir hjá Hafnafjarðabæ sýna og staðfesta!