„Verst setta aldraða fólkið á ekki á nokkurn hátt upp á pallborðið hjá þessari ríkisstjórn.“
„Samkvæmt upplýsingum frá Tryggingastofnun ríkisins eru um 2.080 einstaklingar sem eru þeir verst settu í ellilífeyriskerfinu. Í þessum hópi eru 1.032 öryrkjar sem fá nú ellilífeyri í stað örorkulífeyris. Þessum hóp hefur verið neitað af stjórnarliðum um 66.381 kr. skatta- og skerðingarlaust, eingreiðslu, jólabónus í desember, og það þó að það kosti ríkissjóð ekki nema 138 millj. kr.
Verst setta aldraða fólkið á ekki á nokkurn hátt upp á pallborðið hjá þessari ríkisstjórn, það hefur hún sýnt í Covid-faraldrinum og einnig núna, þegar verðbólgan er um 10%. Hvers vegna skerðir þessi ríkisstjórn orlofs- og desemberuppbót aldraðs fólks þannig að sumir fá ekki krónu að sumri eða um jól?“ Þetta sagði Guðmundur Ingi Kristinsson á Alþingi.
„Skerðingar eru mest vegna lífeyrissjóðsgreiðslna, oft er allt tekið af öldruðu fólki. Þetta eiga að vera 117.000 kr. eða heilar 77.000 kr. eftir skatt, ekki króna fyrir suma og lítið fyrir aðra. Þetta er eins og ef vinnandi fólk myndi fá skerðingu á desemberuppbót sinni vegna yfirvinnu eða annarra tekna, sem er fáránlegt,“ sagði Guðmundur Ingi og hélt áfram;
„Myndum við hér á Alþingi sætta okkur við það að desemberuppbótin okkar myndi skerðast vegna uppbóta á launin okkar? Hvernig getið þið sem eruð í ríkisstjórn komið svona fram við aldrað fólk sem hefur byggt upp landið okkar? Að ráðast fjárhagslega á þá sem geta ekki varið sig er ekkert annað en gróft fjárhagslegt ofbeldi af verstu gerð. Stjórnarliðar, hysjið upp um ykkur skerðingarbuxurnar, sýnið manndóm í því að hætta að níðast fjárhagslega, með skerðingum á orlofs- og desemberuppbót, á öldruðu fólki og öryrkjum.
Hækkun almannatrygginga um næstu áramót er 4,9% samkvæmt fjárlögum. Frjálsir fjölmiðlar fá 10,6%. Spáið í það. Þetta er nær 6% hærra en öryrkjar og aldraðir fá í fjárlögum. Svar félags- og vinnumarkaðsráðherra í gær í óundirbúnum fyrirspurnum um hækkunina var að 2,5% hefðu komið í sumar. Því væri bara hækkun upp á 4,9% um áramót. En hvers vegna fá einkareknir fjölmiðlar 10,6 % hækkun sem er 3% meira en þeir sem eru á lífeyrislaunum almannatrygginga? Hvernig var þetta reiknað út og hverjir gerðu það fyrir hann?“