Geir Þorsteinsson, fyrrum formaður KSÍ, skrifaði eftirfarandi:
Knattspyrnuleiðtogi frá Grindavík – Jónas Þórhallsson næsti formaður KSÍ ?Snemma í haust hafði ég samband við Jónas Þórhallsson góðan vin úr Grindavík og leiðtoga knattspyrnufólks þar í bæ í áratugi. Afrek hans innan fótboltans eru nánast einstök fyrir fámennt bæjarfélag. Má nefna lið í efstu deild, þátttaka í Evrópumótum, uppbygging mannvirkja, traustur rekstur, einstök liðsheild utan sem innan vallar og margar fyrirmyndir frá Grindavík. Mitt erindi var og er hvort Jónas gæti fært enn eina fórnina fyrir íslenska knattspyrnu og gefið kost á sér að leiða íslenska knattspyrnu sem formaður KSÍ.
Engan sæi ég betri til að sameina knattspyrnuhreyfinguna þar sem félögin sjálf væru aftur í forgangi, maður sem nýtur trausts félaga á landsbyggðinni sem á höfuðborgarsvæðinu. Nú þarf leiðtoga til að sameina íslenskan fótbolta og það væri gæfa að Jónas tæki hlutverkið að sér. Hef hugsað til Jónasar síðustu daga og um hans afrek í boltanum út við ysta sæ. (Fyrirgefðu Jónas að ég birti þetta að þér forspurðum og ekki síst þegar erfiðleikar steðja að hjá þér eins og öllum íbúum Grindavíkur. En það spyrja mig margir hvert stefni skuli. Fótboltinn stendur með Grindavík sem órofa heild á erfiðum tímum.)