- Advertisement -

90 starfsmenn Sameinuðu þjóðanna hafa fallið á Gaza

„Raunar má segja að aðgerðir Ísraelshers á svæðinu hafi allt frá fyrsta degi einkennst af fullkomnu skeytingarleysi um þau mannúðarlög sem heimsbyggðin hefur viljað halda í heiðri frá lokum síðari heimsstyrjaldar.“

Steinunn Þóra Árnadóttir.

„Raunar má segja að aðgerðir Ísraelshers á svæðinu hafi allt frá fyrsta degi einkennst af fullkomnu skeytingarleysi um þau mannúðarlög sem heimsbyggðin hefur viljað halda í heiðri frá lokum síðari heimsstyrjaldar.“

Steinunn Þóra Árnadóttir steig í ræðustól Alþingis í gær, og sagði: „Í gær dró António Guterres, aðalritari Sameinuðu þjóðanna, upp svarta mynd af stöðu mála á Gaza-svæðinu sem hann kallaði risastóran barnagrafreit. 10.328 hafa verið drepin, þar af 4.237 börn samkvæmt nýjustu tölum sem ég fann. Í máli Guterres kom einnig fram að á þeim tæpa mánuði sem árásir Ísraelshers á Gaza hafa staðið hafa um 90 starfsmenn Sameinuðu þjóðanna fallið. Ekkert annað stríð í gjörvallri sögu Sameinuðu þjóðanna hefur reynst þeim jafn skætt. Starfsfólk Sameinuðu þjóðanna hefur verið sprengt upp á sjúkrastofnunum, við flutning á særðu fólki, í biðröðum eftir mat og vatni og á heimilum sínum ásamt fjölskyldum sínum líkt og gildir um íbúa Palestínu,“ sagði Steinunn Þóra Árnadóttir Vinstri grænum á Alþingi óí gær.

…einkennst af fullkomnu skeytingarleysi um þau mannúðarlög…

„Þessi dráp eru stríðsglæpir og brot á alþjóðalögum. Raunar má segja að aðgerðir Ísraelshers á svæðinu hafi allt frá fyrsta degi einkennst af fullkomnu skeytingarleysi um þau mannúðarlög sem heimsbyggðin hefur viljað halda í heiðri frá lokum síðari heimsstyrjaldar. Hóprefsingar sem beinast að heilum samfélögum eru ólöglegar. Að svipta almenning nauðsynlegustu grunnkerfum á borð við vatn og rafmagn eru ólöglegar aðgerðir. Að láta sprengjum rigna yfir eitt þéttbýlasta svæði á jörðinni undir því yfirskini að þær beinist að einstaklingum sem þar kunni að vera að finna er augljóst brot á Genfarsáttmálanum. Þau áform Ísraelsstjórnar sem hún fer lítt dult með, að hrekja flesta Palestínumenn frá Gaza og helst til annarra landa, er ekkert annað en þjóðernishreinsanir, einhver svívirðilegasti glæpur sem getur hugsast.“

Að lokum sagði Steinunn Þóra:

„Stríðinu verður að linna. Ísland á og verður að beita öllum tiltækum ráðum til að stöðva sprengjuregn Ísraelshers. Það verður að komast á vopnahlé tafarlaust og í kjölfarið á því þarf að semja um varanlegan frið sem byggir á réttlæti og tryggir raunverulegt öryggi allra íbúa svæðisins til frambúðar. Fyrir þessu á Ísland að beita sér á alþjóðavettvangi.“

-sme


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: