Á meðan að mannúðarhlé íslenskra stjórnvalda varir má ísraelska ríkið sprengja allstaðar annarsstaðar á Gaza
Íslensk stjórnvöld, með Bjarna Benediktsson utanríkisráðherra í fararbroddi, Diljá Mist formann utanríkismálanefndar Alþingis aðra í röðinni og Bjarna Jónsson varaformann nefndarinnar og þingmann Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs hangandi í pilsfaldi Diljár, segja að svokallað „mannúðarhlé verði að gera á átökunum“,“ skrifar Sólveig Anna Jónsdóttir.
Hún heldur áfram:
„Vitið þið hvað þetta mannúðarhlé sem forystusveit Íslands í alþjóðamálum þráir svo heitt, þýðir? Ég skal segja ykkur það:
Mannúðarhlé þýðir nákvæmlega ekki neitt nema að í stutta stund mun ísraelska ríkið ekki varpa sprengjum á fyrirfram ákveðinn stað á Gaza, og þangað verður hægt að flytja það sem á vorum tímum hlýtur að kallast mannúðarvarningur; mat og lyf. Mögulega svæfingalyf, svo að hægt verði í einhverja stund að svæfa alvarlega slösuð börn áður en þau eru aflimuð, en nákvæmlega núna er það ekki hægt. Á meðan að mannúðarhlé íslenskra stjórnvalda varir má ísraelska ríkið sprengja allstaðar annarsstaðar á Gaza. Má halda áfram að sprengja spítala, skóla, sjúkrabíla, bakarí, og öll þau heimili sem enn standa ósprengd. Má halda áfram að sprengja öll börnin á Gaza, nema þau sem að í stutta stund fá náðarsamlegast að dvelja í mannúðarhléi siðspilltra vesturlanda, en þau börn verða einfaldlega sprengt örlítið síðar.“
„Þetta er sannleikurinn um mannúðarhlé,“ skrifar Sólveig Anna. „Þetta er það sem ríkisstjórn Íslands er tilbúin til að „berjast fyrir“ frammi fyrir þeim óbærilega hryllingi sem að heimsbyggðin horfir nú upp á, full skelfingar og sorgar.“
„Ég spyr: Er hægt að hugsa sér eitthvað siðlausara en að reyna að fela eigin mannvonsku og aumingjaskap, og undirlægjuhátt gagnvart þjóðarmorðingjum, á bak við orð sem inniheldur „mannúð.“? Og ég svara: Nei, það er ekki hægt. Það er ekki hægt.“
„Facebook hylur myndina sem hér fylgir. Hún er af manni á Gaza sem æpir í örvæntingu, öðrum manni sem að heldur á dáinni stúlku, þriðja manni sem horfir á, tveimur mönnum í appelsínugulum vestum sem grafa lík úr rústum byggingar sem að ísraelski herinn hefur sprengt.“