- Advertisement -

Kristrún gekk hart fram gegn Þósdísi

„…halda áfram að veikja velferðina, mikilvægar stofnanir og fjárfestingu í innviðum þjóðarinnar?“

Kristrún Frostadóttir.

Það var líf og fjör er þær tókust á, Kristrún Frostadóttir Samfylkingu og Þórdís K.R. Gylfadóttir Sjálfstæðisflokki, um efnahagsmál.

Kristrún byrjaði:

„Hvernig gengur? Hagvöxtur á mann frá árinu 2017 er 0%, 8% verðbólga, yfir 9% vextir og 46 milljarða halli á ríkissjóði, velferðarkerfi sem er í vanda, mikilvægar stofnanir eru komnar að fótum fram eins og t.d. Landhelgisgæslan. Þetta er staðan og þetta er veruleikinn sem blasir við fólki um land allt. Á sama tíma sjáum við stjórnmálaflokk sem er stoltur af þessu ástandi. Sjálfstæðisflokkurinn hyllir forvera hæstvirtan fjármálaráðherra og stærir sig af því að hafa á tíu árum tekið 95 milljarða út úr árlegum tekjustofni hins opinbera. Það er sama upphæð og fer í rekstur Landspítalans á næsta ári eða tvöföld sú upphæð sem þyrfti til að skrúfa fyrir halla ríkissjóðs,“ sagði Kristrún og var rétt að byrja:

Þú gætir haft áhuga á þessum

„Framsókn leyfði þessu að gerast, Vinstri græn leyfðu þessu að gerast en Sjálfstæðisflokkurinn stærir sig beinlínis af því að veikja velferðina. Þessir þrír flokkar hafa tekið 95 milljarða út úr velferðarkerfinu á hverju einasta ári. Þau hafa tekið rekstur eins Landspítala út úr tekjustofnum hins opinbera. Það er samhengi á milli skatta og velferðar. Velferð verður ekki til úr engu þó að stjórnarflokkarnir hafa reynt að stilla málum þannig upp á undanförnum árum með dvínandi trausti. Og hvernig gengur? Skoðum tímabilið frá 2017: Hagvöxtur á mann 0, í raun niður, verðbólga upp, vextir upp, velferð niður, barnabætur og vaxtabætur niður, húsnæðisverð og leiguverð upp, gjöld á almenning upp og efnahagslegur stöðugleiki er enginn. Stjórnarflokkarnir þrír hafa lækkað skatta mest á þeim sem standa best en á sama tíma hefur allt annað í hagkerfinu hækkað nema það sem við viljum sjá að hækki.

Ég vil því spyrja hæstvirtan fjármálaráðherra: Ætlar ráðherra að gera meira af því sama; taka tugi milljarða út úr velferðarkerfinu okkar, halda áfram að veikja velferðina, mikilvægar stofnanir og fjárfestingu í innviðum þjóðarinnar?“

Þetta er einfaldlega alrangt

Nú var komið að Þórdísi K.R. að svara:

„Ég get alveg staðið hér og tekið undir það og bakkað það upp að mér þykir góð hugmynd almennt að lækka skatta og gjöld. Þar erum við Kristrún Frostadóttir einfaldlega ósammála í grundvallaratriðum. Háttvirtur þingmaður segir að skattalækkanirnar þýði að við höfum tekið út úr velferðarkerfinu 90 milljarða. Þetta er einfaldlega alrangt og það er ótrúlegt af öllu því sem háttvirtur þingmaður getur komið hér fram með og lagt á borð, að það sé teiknað þannig upp að við hefðum tekið út úr velferðarkerfum 90 milljarða. Bíddu, hvað höfum við verið að gera? Við höfum bætt í alls staðar í velferðarkerfinu. Fjármunir sem hafa verið settir í Landspítalann, í heilbrigðiskerfið almennt, í aðra þjónustu á sviði velferðarmála, í það fara peningarnir. Við verjum meiri hluta alls sem við öflum af vinnandi fólki í þessu landi í þessi kerfi og við höfum bætt í þau þannig að það er einfaldlega rangt að við höfum tekið út úr velferðarkerfinu 90 milljarða. Við höfum einmitt gert hið öfuga, við höfum bætt í velferðarkerfið,“ svaraði hinn nýi fjármálaráðherra.

Og hélt áfram:

Háttvirtur þingmaður segir síðan að við höfum lækkað skatta mest á þá sem mest hafa. Tekjusagan sýnir svart á hvítu að bæði hafa aðilar vinnumarkaðarins komið því þannig fyrir að laun tekjulægstu tíunda hafa hækkað hlutfallslega meira en annarra tekjutíunda og sömuleiðis hafa tekjuskattsbreytingar sem ríkisstjórnin hefur farið í einmitt nýst þeim tekjulægstu meira heldur en öðrum tekjuhópum. Það er sú pólitík sem hér hefur verið keyrð og þess vegna áttu þessir 90 milljarðar, sem háttvirtur þingmaður nefnir að séu ekki lengur teknir í skatta, áður heima á heimilum tekjulægstu hópanna að uppistöðu til. Það er rangt að við höfum tekið 90 milljarða úr velferðarkerfinu og það er rangt að við höfum verið að lækka skatta mest á þá sem hæst laun hafa á kostnað þeirra sem minnst hafa,“ sagði Þórdís.

Þess vegna er verðbólga í landinu

Kristrún kom næst í ræðustól og sagði:

„Hæstvirtur fjármálaráðherra. Það hefur verið gengið of langt hérna. Ég átta mig alveg á því að það er pólitískur munur hérna í gangi en við sjáum það öll ef við horfum á velferðarkerfin okkar að það hefur verið gengið of nærri þeim. Og þetta er skuld sem er að magnast upp fyrir komandi kynslóðir, kerfi sem eru brotin niður og munu bitna á þessum kynslóðum, vegna þess að á einhverjum tímapunkti gengurðu það langt að það er ekki hægt að gera við kerfin,“ sagði Kristrún og hélt áfram:

Hæstvirtur fjármálaráðherra ætti e.t.v. að kynna sér álit fjármálaráðs og hvaða skoðun fjármálaráð hefur á því að það hefur verið ófjármagnaður vöxtur í ákveðnum einingum innan ríkisins og að verið er að eyða verðbólgu- og tekjufroðu, umframtekjum sem hafa komið til ríkissjóðs vegna þess að það er búið að lækka ákveðna skatta í landinu. Þetta er ekki bara álit pólitísks flokks eða forystumanneskju heldur álit fjármálaráðs. Það liggur alveg fyrir að það er búið að vera að eyða tekjufroðu hérna og þess vegna er verðbólga í landinu.

Hæstvirtur fjármálaráðherra ætti líka að kynna sér hvernig tekjudreifingin í landinu er og átta sig á því að það verða svo sannarlega ekki teknir 90 milljarðar af tekjulægsta fólkinu í landinu,“ sagði Kristrún og lauk þar með máli sínu.

Sett himinháar fjárhæðir í velferðarkerfið

Þórdís K.R. Gylfadóttir átti síðustu orðin:

„Ég sagði ekki að 90 milljarðarnir hefðu allir verið teknir af tekjulægstu hópum í þessu landi. Ég sagði að það væri rangt að 90 milljarðar í skattalækkanir hefðu verið teknir úr velferðarkerfinu þegar við höfum sett himinháar fjárhæðir í velferðarkerfið til viðbótar við það sem áður var. Það sem ég sagði var að tekjulægstu hóparnir hefðu notið góðs af þeim tekjuskattsbreytingum sem farið var í á síðasta kjörtímabili og við höfum markvisst horft á þann hóp og spurt okkur hvernig hægt er að bæta stöðu þeirra. Það er kannski ágætt að hér komi skýrt fram að það sem hv. þingmaður er hér að boða er að það þurfi frekari skattahækkanir sem heita því nafni. Sama hvaða nöfnum háttvirtir þingmenn geta nefnt það þá eru skattahækkanir skattahækkanir. Við höfum einfaldlega að mínu mati alls ekki gengið of langt í skattalækkunum. Aftur nefni ég að okkar vandi og vandi ríkissjóðs er ekki tekjuvandi. Það er miklu frekar útgjaldavandi sem blasir við okkur þar sem verkefnið er skýrt og ég heyrði háttvirtan þingmann ekki koma með neinar sérstakar lausnir á því. En það er einfaldlega verkefnið.“


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: