„Ég bið þingheim að hugsa um Ísland án landbúnaðar. Hvernig land væri það ef við hefðum ekki öflugan landbúnað? Ég held að fæðuöryggi væri þá ekki tryggt hér á landi og það er það kannski ekki enn þann dag í dag, en það væri þó enn verri staða þannig að við þurfum að huga að því að gera eins og allar þjóðir gera, þær verja sína framleiðslu,“ sagði þingmaðurinn og ritari Sjálfstæðisfslokksins, Vilhjálmur Árnason.
„Allar þjóðir vilja hafa sem mesta framleiðslu í sínu landi. Það er umhverfisvænt, það er líka efnahagslega mikilvægt. Við þurfum að hafa þetta tvennt í huga; að verja innlenda framleiðslu og tryggja fæðuöryggi. Því er mikilvægt að við förum ekki í einhverja slagorðasamkeppni og sleggjudóma hér í umræðu um alvarlega stöðu bænda, heldur hugsum í lausnum: Hvernig getum við fundið varanlegar lausnir í að bæta rekstrarumhverfi íslenskra bænda og stöðu þeirra þjóðinni til heilla? Það skiptir mjög miklu máli. Það er ekki einhver ein lausn eða einhverjar háar peningagreiðslur sem leysa þetta. Við þurfum að auðvelda þeim leiðir til hagræðingar og við þurfum að hjálpa þeim til fjárfestinga enda höfum við sett miklar kröfur á þau í dýravelferðarmálum, sem bændur fagna vissulega. En það kostar fjárfestingu og annað slíkt,“ sag’i Vilhjálmur og sagði svo:
„Við erum best í heimi þar eins og annars staðar og þeirri stöðu viljum við halda. Íslenskur landbúnaður með gott fæðuheilnæmi og góða dýravelferð er landbúnaður sem við eigum að styðja við.“