Þorgerðir Katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar, skrifar í Mogga dagsins:
„Viðreisn hefur lengi kallað eftir auknu aðhaldi í ríkisfjármálum, betri rekstri og nýtingu fjármuna. Löngu fyrir kórónufaraldurinn vöruðum við við linnulausri útgjaldaþenslu ríkissjóðs enda ríkisfjármálin þá orðin ósjálfbær. En í stað þess að stíga á bremsurnar var gefið í af hálfu ríkisstjórnarinnar.
Verðbólgan og gríðarháir vextir sem heimilin glíma nú við af miklum þunga er ein birtingarmynd þessa agaleysis ríkisstjórnarinnar. Önnur birtingarmynd er að kaupmáttur ráðstöfunartekna hefur rýrnað og hagvöxtur á mann er minnstur á Evrópusvæðinu. Þar rekum við lestina. Áralangur fjárlagahalli, sem verður næstu ríkisstjórnar að leysa, er síðan enn ein birtingarmyndin.“
Síðar í greininni segir: „Þegar kemur að skattheimtu erum við Íslendingar á toppnum með vinaþjóðum okkar á Norðurlöndum. Hér verður nóg að vera nóg. Við hljótum að geta forgangsraðað innan þessa rúma skattaramma. Það er hins vegar áhugavert að mikil framlög Norðurlandaþjóða til herkostnaðar og varnarmála koma ekki í veg fyrir að þær fjárfesti meira í heilbrigðiskerfinu en við Íslendingar. Hvað kemur til? Er meiri metnaður þar en hér þegar kemur að heilbrigðismálum? Ég held ekki enda allir íslenskir stjórnmálaflokkar sammála um að byggja upp öflugt heilbrigðiskerfi fyrir okkur öll. Það er engin nýlunda eða ný vísindi.“