„Það sætir furðu að sjálfstætt reknum skólum sé hótað því að greiðslur til þeirra vegna þessarar þjónustu verði felldar niður sætti þeir sig ekki við breytt fyrirkomulag innan tveggja vikna.“ Þetta er úr fyrirspurn sem borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins, lögðu fram í borgarráði nú undir helgi.
Borgarráðsfulltrúarnir óska eftir óháðu lögfræðiáliti á afgreiðslu skóla- og frístundaráðs varðandi greiðslur vegna frístundastarfsemi sjálfstætt rekinna skóla í borginni. „Svo virðist sem umrædd afgreiðsla endurspegli afstöðu meirihluta Samfylkingar, Bjartrar framtíðar, Pírata og Vinstri grænna til sjálfstætt rekinna skóla,“ segja þeir.
Skólunum stillt upp við vegg
Borgarfulltrúarnir segja að frá árinu 2013 hafi sjálfstætt reknir skólar fengið greitt framlag vegna rekstrar frístundastarfsemi yngstu árganganna án þess að formlegur samningur liggi fyrir þar að lútandi. „Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins telja sjálfsagt að unnið sé að slíkri samningsgerð en leggja mikla áherslu á að það verði gert í sátt og samvinnu við þá skóla sem bjóða umrædda þjónustu en þeim ekki stillt upp við vegg innan þröngra tímamarka.“
Þeir hafa áhyggjur: „Er það ekki síst mikilvægt í ljósi þess að sjálfstætt reknir skólar telja framlög borgarinnar til starfseminnar vera of lág og hafa ítrekað óskað eftir leiðréttingu sem æskilegt væri að yrði gerð í tengslum við slíka samningsgerð.“
Jafnvel brot á lögum
„Það sætir furðu að sjálfstætt reknum skólum sé hótað því að greiðslur til þeirra vegna þessarar þjónustu verði felldar niður sætti þeir sig ekki við breytt fyrirkomulag innan tveggja vikna,“ skrifa borgarráðsfylltrúar Sjálfstæðisflokksins.
„Hæpið er að slíkt standist góða stjórnsýsluhætti og jafnvel lagareglur vegna þess að ef hótuninni verður hrint í framkvæmd verður ekki annað séð en að hún hafi afturvirk áhrif í för með sér,“ segja þeir. „Hér er tvímælalaust um íþyngjandi ákvörðun að ræða og hefði því verið lágmark að tilkynna umræddum skólum um hana fyrirfram og að gefa þeim kost á að koma andmælum á framfæri.“