Stjórnarandstæðingar hafa gagnrýnt ríkisstjórnina vegna slælegrar stjórnar á efnahagsmálum. Vegna verðbólgunnar er margt fólk í stökustu vandræðum. Eignir og peningar brenna upp hvern dag.
Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, ráðherra í ríkisstjórninni, skrifar grein sem birt er á leiðarasíðu Moggans. Við lestur greinarinnar vakna spurningar. Til dæmis hvaða flokki ráðherrann tilheyrir, fer hún með þessar hugsanir á viðeigandi fundum og eru skrif hennar ekki áfellisdómur yfir störfum Bjarna Benediktssonar efnahagsmálaráðherra nánast í tíu ár samfellt?
Í grein Áslaugar Örnu segir:
„Verðbólga kemur illa við alla. Ef við tökum dæmi af ungu fólki þá hamlar hún því að fólk komist inn á húsnæðismarkaðinn. Til að taka einfalt dæmi má nefna einstakling sem hafði safnað sér fimm milljónum í upphaf árs 2021 og vantaði þá eina milljón til að eiga fyrir útborgun á 40 milljóna króna íbúð. Hann á í dag aðeins 4,4 milljónir í banka og vantar 2,7 milljónir í útborgun á sömu fasteign. Einstaklingur sem aftur á móti var kominn í eigin íbúð og átti 5 milljónir króna í eigið fé, á sama tíma á nú átta milljónir í eigið fé. Aftur á móti hefur húsnæðisverð hækkað þannig að sá einstaklingur getur átt erfitt með að stækka við sig. Einnig mætti nefna fyrirtæki sem þurfa að fjármagna sig á háum vöxtum á sama tíma og þau þurfa að stilla verðlagi og launakostnaði í hóf,“ skrifar Áslaug Arna.
„Það er engin ein lausn í baráttu við verðbólgu. Það má þó draga þann lærdóm af henni að lífsgæði þurfa að byggjast á stöðugleika og á traustum efnahagslegum grunni. Hvorugt er skapað með loforðaflaumi stjórnmálamanna um fallega framtíðarsýn og stóraukin útgjöld, svo tekið sé nærtækt dæmi.“