Stríðsfréttir eru á leiðaraopnu Moggans í dag. Davíð Oddsson ritstjóri og Svandís Svavarsdóttir sjávarútvegsráðherra takast þar á. Davíð er kokhraustur: „…til að særa fram upplýsingar sem matvælaráðherra vildi forvitnast um, en varðar ekkert um og hefur engar heimildir til að krefjast,“ segir í leiðara Davíðs.
Ráðherrann varðar sem sagt ekkert um hver er hvað og hvað er hvers í sjávarútvegi Íslendinga.
Svandís skrifar: „Ritstjórn Morgunblaðsins telur gagnsæi greinilega svo mikla ógn við fjársterka aðila að bregðast þurfi af afli við áformum stjórnvalda um að varpa skýru ljósi á sjávarútveginn. Eigendur blaðsins, að stærstum hluta stórfyrirtæki í sjávarútvegi, þétta raðirnar og pólitísk öfl úr þeim ranni láta til sín taka. Engu að síður er mitt mat að aukið gagnsæi hljóti að vera til góðs. Tortryggni þrífst í leyndarhyggju og vantraust almennings í garð atvinnugreinar á borð við sjávarútveg er óásættanlegt fyrir stjórnvöld og greinina sjálfa. Varðstöðu greinarinnar, stjórnmálafólks og Morgunblaðsins um leynd verður að linna til þess að sjávarútvegurinn fái að njóta sannmælis og forsendur skapist fyrir aukinni sátt.“
„Málið þarfnast rannsóknar og það þarf að hafa afleiðingar. Það má ekki spyrjast að spillingin sé umborin,“ segir í leiðaranum.
Hér fer enn ein tilvitnun í grein Svandísar: „Sjávarútvegurinn hefur lengi verið bitbein átaka og ljóst er að umtalsvert vantraust ríkir í garð greinarinnar. Besta leiðin til þess að auka traust til hennar en um leið að treysta samkeppnishæfni, verðmætasköpun og réttlæti í kerfinu er að kveikja ljósin.“
Látum þetta gott heita. Að sinni að minnsta kosti.