„Í nýju fjármálastöðugleikariti Seðlabankans kemur fram að fjárhæð óverðtryggðra lána með föstum vöxtum sem munu losna á næstu tveimur árum nemur 462 milljörðum króna,“ skrifar Hanna Katrín Friðriksson, þingflokksformaður Viðreisnar, og birtir í Mogganum.
„Að óbreyttu mun það hafa í för með sér gríðarlegar hækkanir á mánaðarlegum afborgunum fjölda heimila af húsnæðislánum, nokkuð sem þau bregðast nú við með því að færa sig yfir í verðtryggðu lánin. Tveggja ára gamlar yfirlýsingar ríkisstjórnarinnar og seðlabankastjóra um dauða verðtryggingarinnar voru nefnilega fullkomlega innihaldslausar.
Þessi viðbrögð heimila landsins eru eðlileg og nauðsynleg þeim sem ekki ráða við sturlaða hækkun á mánaðarlegri greiðslubyrði. En þau eru sannarlega ekki ókeypis fyrir heimilin. Þau sem enn ráða við afborganir af óverðtryggðum lánum horfa á höfuðstól lána sinna lækka en höfuðstóll verðtryggðu lánanna hækkar þegar verðbætur leggjast ofan á. Fórnarkostnaðurinn við að sleppa við hinar sturluðu hækkanir á mánaðarlegum afborgunum er þannig sá að gengið er á eigið fé heimila.
Við þekkjum þessa stöðu, höfum upplifað hana áður og við okkar sem eldri erum oftar en einu sinni. Við vitum að með örgjaldmiðli er erfitt að tryggja stöðugan kaupmátt, lægri verðbólgu og fyrirsjáanlegar afborganir af húsnæðislánum. Þá eru ónefnd áhrifin sem þessi viðbótarfjármagnstilfærsla frá þeim sem skulda yfir til þeirra sem eiga skuldirnar hefur á skiptingu eigna og tekna í samfélaginu.
Það er óskiljanlegt að enn fyrirfinnist stjórnmálaflokkar sem ekki hafi það efst á stefnuskrá sinni að koma í veg fyrir þessar séríslensku kollsteypur og áhrif þeirra á efnahag og lífskjör íslenskra heimila. Í umræðum á þingi í liðinni viku sagði forsætisráðherra að upptaka evru leysti ekki öll vandamál Íslands. Því er ég sammála og hef enda ekki heyrt nokkra manneskju halda því fram. En þetta eru klassísk viðbrögð þeirra sem ekki ætla að gera neitt annað en bíða eftir næstu stóru uppsveiflu. Því hún mun koma. Þá verða vandamálin við krónuna gleymd að mestu, þar til í næstu stóru niðursveiflu. Því hún mun líka koma. Það er einn helsti ókostur krónunnar hvernig hún ýkir að öðru leyti eðlilegar hagsveiflur, bæði upp og niður. Og þegar við bætast stjórnvöld sem ekki búa í haginn fyrir mögru árin með efnahagsstefnu sinni þá blæðir heimilum enn frekar.
Við verðum að hafa úthald til að setja okkur stefnu og markmið til lengri tíma. Það er hins vegar aðkallandi að bregðast við því að það hefur ekki verið gert til þessa, með sérstökum aðgerðum í þágu illa staddra heimila. Stundum þarf að hafa augun á tveimur boltum í einu. Núna er rétti tíminn til þess,“ skrifaði Hanna Katrín Friðriksson.