Mogganum líst ekki vel á vinnu Svandísar Svavarsdóttur matvælaráðherra. Í leiðara dagsins er fundið að vinnu hennar við hugsanlegar breytingar á stjórn fiskeiða, kvótakerfinu. Miklir hagsmunir eru undir. Ekki síst meðal eigenda Moggans.
„Ef stjórnmálamenn, ekki síst þeir sem gegna embætti ráðherra sjávarútvegsmála hverju sinni, legðu áherslu á kosti aflamarkskerfisins í stað þess að ýta undir ósætti mundi afstaða margra breytast. En á meðan til eru stjórnmálamenn og jafnvel stjórnmálaflokkar sem gera út á óánægjuna og ala á henni næst seint sú sátt um sjávarútveg sem ráðherrann segist vilja,“ segir í lok leiðarans.
Hvað sem hver segir er mikið ósætti með hvernig þessum málum er háttað. Svandís breytir litlu um það. Og alls ekki Mogginn. Gagnrýni á „kerfið„ kallar Davíð Oddsson fordóma.
„Á meðan tilteknir stjórnmálamenn og stjórnmálaflokkar gera út á fordóma gegn sjávarútveginum er hætt við að ávallt verði að finna einhverja óánægju með greinina. Sátt verður að minnsta kosti mun erfiðari við slíkar aðstæður og sátt virðist ekki sérstakt markmið þeirrar vinnu sem matvælaráðherra setti af stað í fyrra og kynnti fyrir rúmum mánuði þó að talað sé um sátt með þeim hætti sem ráðherra hefur gert.“
Sátt Moggans er sýnilega óbreytt kerfi. Þá er Mogginn örugglega í minnihluta.