„Ráðherrarnir íslensku hafa hvorki þrek né manndóm til að taka fram fyrir hendur þeirra sem setið hafa yfir dellumakaríinu í áratugi engum til gagns.“
„Stórbrotin hræðsluherferð um manngerða helför jarðarbúa kallar eftir miklum fjármunum til að bregðast við ósköpunum og bjarga heiminum. Enginn veit þó hvernig fjáraustur á að gera það. Það er svo sem virðingarvert að vilja ekki sitja hjá á meðan heimurinn tortímist. En þegar betur er að gáð þá er ekki allt sem sýnist. Stórkarlalegar yfirlýsingar og freklegar fullyrðingar eru grunnar þessara „fræða“ og „vísindin“ á bak við allar þessar ógnir sem fylgja halda ekki vatni þegar að er gáð.“
Þetts er upphaf leiðara Moggans. Næst kemur þetta:
„Þó hafa vænstu menn og virðingum hlaðnir óhræddir skipað sér á bak við fullyrðingarnar, „spárnar“ og ósköpin öll sem þær boða. Hvenær sem koma fréttir um stórbrotna umhleypinga hér og hvar í heiminum, þá bregst það varla að „fréttamennirnir“ sem þær segja skjóta því jafnan inn í fréttirnar að „talið sé að þessa válegu atburði megi rekja til „heimsendahlýnunar“. Enginn veit hvað þeir hafa fyrir sér í því. Þegar það er svo skoðað stenst fæst af þeim upphrópunum.“
Hér eru svo tveir kaflar sem eru um leið lokin á leiðaranum:
„Mestu fréttirnar tengdar því fyrirbæri komu nokkru síðar frá Bretlandi, þegar fréttum var lekið úr breska stjórnkerfinu, í tilraun til að hræða það frá ákvörðunum sem kerfið vissi að lágu í loftinu. En ekki tókst þó að setja fótinn fyrir áform Rishi Sunak forsætisráðherra varðandi seinkun á mikilvægum tímasetningum, sem stjórnvöldin höfðu áður birt sem loforðabönn, tengdum „viðbrögðum við heimsendahlýnun af mannavöldum“. Nú voru rökin um seinkun þau, að Bretar hefðu þegar gert miklu meira en flestir með sínum aðgerðum og sanngjarnt væri að slíkir fengju tóm til að komast nær þeim markmiðum sem Bretar hefðu þegar lofað og staðið við, áður en Bretar færu enn meir fram úr öðrum.
Varla þarf að minna börnin, sem stjórna þátttöku Íslendinga í darraðardansinum, á að þau ættu að stöðva sitt gönuhlaup um enn meiri útgjöld, sem ekki er nokkur réttlæting fyrir, frekar en fyrir kröfunum um óþarfa eyðslu fjár sem nýtist betur hér á landi en hent á heimshauginn. Ráðherrarnir íslensku hafa hvorki þrek né manndóm til að taka fram fyrir hendur þeirra sem setið hafa yfir dellumakaríinu í áratugi engum til gagns.“