„Ráðherra hefur tilteknar valdheimildir lögum samkvæmt og aðrar ekki. Þess vegna má ráðherra ekki – með samningum og greiðslum eða öðrum hætti – sækja sér aðrar valdheimildir en honum eru ætlaðar. Það er ástæða fyrir því að hann hefur sínar valdheimildir en ekki aðrar og einungis Alþingi má breyta því. Hafi ráðherra ekki vald til einhvers má hann ekki bara hringja eftir þörfum í lögregluna eða landlækni, sem kunna að hafa slík völd til annarra verkefna,“ segir í leiðara Moggans í dag.
Þar á bæ kætist fólk vegna ógildingar dagsekta á Brim. Og ógildingar samnings milli ráðuneytis Svandísar og Samkeppniseftirlitsins.
Svandís þarf nú að þola bylmingshögg frá Sjálfstæðisflokki og Mogga. Eins þarf Páll Gunnar Pálsson, forstjóri Samkeppniseftirlitsins, að þola ,örg högg. Sum þung.
Meira úr leiðaranum:
„En það var nákvæmlega það sem Svandís Svavarsdóttir matvælaráðherra reyndi að gera með ólöglegum samningi sínum við Samkeppniseftirlitið: að greiða SKE fyrir að það notaði sínar sérstöku valdheimildir til þess að komast að einhverju sem ráðherra hefur ekki heimildir til þess að krefja nokkurn um. Og það í pólitískum tilgangi.
Þarna hefur Svandísi Svavarsdóttur matvælaráðherra orðið svo stórkostlega á í messunni að vandséð er að hún haldi trausti Alþingis.
Er þó ekki allt upp talið, því til þess að greiða SKE fyrir viðvikið fór matvælaráðherra í kringum fjárveitingavald Alþingis. Úr ríkissjóði má ekkert gjald greiða af hendi, nema heimild sé til þess í fjárlögum eða fjáraukalögum. Til þess arna var notað fé úr fjárlagaliðnum „Ýmis framlög í sjávarútvegi“ en Samkeppniseftirlitið er ekki í sjávarútvegi, heyrir undir annan ráðherra og á ekki að vera á snærum matvælaráðherra.
Ráðherra hefur vissulega nokkurt svigrúm og sveigjanleika innan rammafjárlaga, en aðeins innan sinna málaflokka. Matvælaráðherra má ekki leggja SKE til fjármuni frekar en þjóðkirkjunni, þó einhverjum þyki málstaðurinn göfugur.
Einnig þarna hefur matvælaráðherra fyrirgert trausti Alþingis til sín.
Ef til vill er það þó afstaða matvælaráðherra til ríkisvaldsins og hins frjálsa þjóðskipulags sem mestar áhyggjur vekur. Í gær áréttuðu Samtök atvinnulífsins mikilvægi meðalhófs í upplýsinga- og gagnaöflun hins opinbera, en þegar mbl.is innti Svandísi álits á því stóð ekki á svörum:
„Ég held að það sé mikilvægt að atvinnustarfsemi í landinu sé þannig að hún hafi ekkert að fela.“
Stasi hefði ekki getað orðað það betur.“