- Advertisement -

Viðhorf: Ekki með sama húmor og Guðni

Viðhorf: Pistill Sigurjóns M. Egilssonar úr þættinum Sprengisandi á Bylgjunni í gær:

Ég vil í upphafi játa að ég hef verið utan þjónustusvæðis síðustu daga, ég hef ekki fylgst með fréttum líkt og venjulega og ég hef ekki séð Facebook í marga daga. Því hef ég ekki séð hvaða útreið Guðni Ágústsson fékk þar. Ég hef lengi þekkt til Guðna, oft talað við hann og verið á skemmtunum þar sem hann hefur verið ræðumaður. Ég er til vitnis um að menn hafa tekið bakföll af hlátri þegar hann hefur messað yfir viðstöddum. Einu sinni skrifaði ég bakþanka í Fréttablaðið þar sem Guðni kom við sögu. Hann var ekki par sáttur við mig og hringdi snemma dags og sagði, sem rétt er, Sigurjón Egilsson, við höfum ekki sama húmor. Það var alveg rétt hjá honum. Það breytir því ekki að ég hef séð menn nánast kafna af hlátri undan fyndni Guðna. Svo kann ég nokkra einna línu brandara eftir hann.

Þrátt fyrir að almennt sé húmor okkar Guðna ekki sá sami, er ljótt að ráðast að honum vegna þess sem hann segir á hinum og þessum samkomum, oftast þar sem gestir margir hverjir eru búnir að skvetta í sig einum og einum, kannski fleirum.

Nú að pólitikinni.

Þú gætir haft áhuga á þessum

Þegar ég kynnti mér, sem best ég gat, hvers vegna Guðni hætti við framboð, átti ég, og á enn, bágt með að trúa að hann, sem var á einum stað eða fleirum, kallaður stórmeistari í stjórnmálum, hafi sett sem skilyrði að Framsóknarflokkurinn setti áframhald Reykjavíkurflugvallar sem sitt helsta, og jafnvel eina, kosningamál. Ég trúi þessu ekki og held að Guðni sé ekki síður ósáttur við þá sem gera honum upp að hafa bara eina pólitíska sýn fyrir Reykjavík, það er að ekki verði hróflað við flugvellinum, en mig forðum, þegar ég minntist á hann í Bakþönkum Fréttablaðsins.

Nú er ég ekki kjósandi í Reykjavík, en ég þekki marga sem þar búa og ég get ekki ímyndað mér eitt augnablik að tilvist Reykjavíkurflugvallar sé borgarbúum efst í huga þegar þeir ákveða hvern, hverja eða hvern þau kjósa til að ráða framtíð Reykjavíkur næstu árin.

En sé þetta allt satt og rétt, að Guðni hafi viljað að Framsókn yrði sérstakur flugvallaflokkur í Reykjavík er ég ekki hissa á að Framsóknarflokkurinn hafi hafnað stórmeistaranum sínum.

Að öðru, ég þreytist ekki á að minna á að fyrirhugaður Evrópusinnaður flokkur mælist með sama fylgi, nánast upp á punkt og prik, og Samstaða Lilju Mósesdóttur mældist með í fyrstu könnunum þess flokks. Ég er ekki að segja eða spá að eins fari fyrir nýja flokknum og fór fyrir Samstöðu.En fylgið mælist jafnmikið.

Einn af þingmönnum Sjálfstæðisflokksins sagði við mig fyrir fáum vikum að hann fagnaði ef til yrði nýr flokkur, sá flokkur myndi sækja fylgi sitt annað en til Sjálfstæðisflokksins, fylgi hans væri hvort eð er komið inn að beini og þangað væri ekki meira fylgi að sækja. Bara kjarnafylgið væri eftir. Haldi Sjálffstæðismenn að fylgistapið sé gengið yfir og að flokkurinn verði ekki minni en fjórðungsfylgisflokkur er hætta á að verr fari, að mjög illa fari. Og ég trúi ekki að þeir sem þar ráða ríkjum, ungir og gamlir, kjörnir og ókjörnir, séu svo vissir um að meira fylgi geti ekki tapast og að þeir fljóti sofandi að feigðarósi.

Tapi Sjálfstæðisflokkurinn meira fylgi og haldi þróunin áfram, það er sá hluti hennar, að ungt fólk hafni flokknum, flokki valdsins, er ljóst að framundan eru mestu breytingar sem hafa orðið í íslenskum stjórnmálum. Getur verið að hrun mesta valdaflokks þjóðarinnar sé framundan. Og þá mest sökum taktleysis og vanmats á fólkinu í landinu.

Og svo þetta. Best er að fullyrða að þingsályktunartillaga Gunnars Braga Sveinssonar, um slit á samningum við Evróusambandð, verður ekki afgreidd frá Alþingi, ekki fyrr en búið verður, einhvern tíma í fyllingu tímans, að samþykkja lög, og jafnvel breyta stjórnarskrá, um þjóðaratkvæðagreiðslur.

Þannig er nú það. Og nú er tími til kominn að taka á móti fyrstu gestum þessa þáttar, þeim Guðmundi Hálfdánarsyni og Jakobi F. Ásgeirssyni.


Auglýsing

Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: