„Flokksráðsfundur Sjálfstæðisflokksins 2023 verður haldinn hinn 26. ágúst nk. Flokksráðið hefur það hlutverk að marka stjórnmálastefnu flokksins ef ekki liggja fyrir ákvarðanir landsfundar. Nú liggur fyrir Alþingi lagafrumvarp utanríkisráðherra um breytingu á lögum um Evrópska efnahagssvæðið, nr. 2/1993 (bókun 35). Landsfundur hefur ekki fjallað um þetta frumvarp, en efni þess er andstætt grundvallarstefnu Sjálfstæðisflokksins, þar sem það miðar að framsali íslensks löggjafarvalds til yfirþjóðlegs stofnanavalds, ESB. Alþingi er óheimilt samkvæmt stjórnarskrá lýðveldisins að samþykkja frumvarp utanríkisráðherra,“ skrifa þeir Birgir Örn Steingrímsson, Jón Kári Jónsson og Júlíus Valsson félagar í Félagi sjálfstæðismanna um fullveldismál, SFS.
„Með framlagningu frumvarpsins kristallast sú staðreynd að varaformaður flokksins tekur hagsmuni ESB fram yfir hagsmuni og sjálfstæði Íslands. Sams konar afstaða birtist í öðrum málum, sbr. innleiðingu kolefnisskatta ESB á flug og skipaferðir. Núverandi þingflokkur Sjálfstæðisflokksins hefur brugðist í varðstöðu gegn yfirgangi yfirþjóðlegs valds.
Jafnvel yfirstjórn heilbrigðismála skal nú til WHO þar sem forsætisráðherra Íslands hefur verið skipaður sérstakur sendiherra. Landamæri Íslands standa nánast galopin.
Á flokksráðsfundi Sjálfstæðisflokksins, sem haldinn verður 26. ágúst nk., mun Félag sjálfstæðismanna um fullveldismál (FSF) leggja fram tillögu til ályktunar sem hljómar svo:
Flokksráð Sjálfstæðisflokksins hvetur utanríkisráðherra til að draga til baka frumvarp til laga um breytingar á lögum um Evrópska efnahagssvæðið nr. 2/1993 (bókun 35).
Sjálfstæðisflokkurinn mun standa vörð um fullveldi Íslands og frelsi þjóðarinnar til að setja sín eigin lög án ytri þvingunar.
Félagsmenn í FSF skora á alla sjálfstæðismenn að standa vörð um grunngildi og stefnuskrá flokksins með frelsi, lýðræði og fullveldi Íslands að leiðarljósi.“
-ritstj.