Sigurjón Þórðarson:
…á bendir flest til þess að ráðuneytisliðið hafi verið kallað snemma úr sumarleyfi til þess að svara hljóðvarpsþætti…
Á liðnum vikum hafa verið settir út á netið hljóðvarpsþættirnir Lömbin þagna ekki, þar sem ráðherra barnamála hefur verið borið á brýn að hafa staðið að; innbrotum, misferlum og stutt við skemmdarverk og ofsóknir. Fátt hefur verið um svör en myndskeið af nýliðnum atburðum benda eindregið til þess að eitt og annað sé til í ýmsum þeim ásökunum sem settar hafa verið fram.
Barnamálaráðherra blés í gær til mikillar sóknar í málefnum barna með fjölþættan vanda en þau voru sögð vera 127 að tölu á landinu. Tillögur ráðherra fólust fyrst og fremst í breyttri verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga. Ekkert vantaði upp á lúðrablástur né að hjörð úr ráðuneytinu endurómaði boðskap Dalasmalans. Engu að síður þá var það þokukennt hvernig boðuð ríkisvæðing málaflokksins sparaði mikla fjármuni nema að gefið var í skyn að hún leiddi strax af sér fækkun starfsfólks sem sinnti börnunum.
Áherslur barnamálaráðherra eru mjög á skjön við áherslur stjórnvalda t.d. í Danmörku sem setja í forgang snemmbær inngrip, ef vart verður við að barn búi við óviðunandi aðstæður. það verður vart gert með miðlægri ríkisstofnun eða hvað? Miðað við hvað tillögurnar eru augljóslega skammt á veg komnar og verið er að hræra í málum barna með fjölþættan vanda við óskyld mál á borð við fylgdarlaus flóttabörn, þá bendir flest til þess að ráðuneytisliðið hafi verið kallað snemma úr sumarleyfi til þess að svara hljóðvarpsþætti, í stað þess að það lægi svo á að kynna aðkallandi fullburða tillögur.