„Mér finnst sjálfsagt í svona samskiptum að svara beiðni um fund. Ég er eldri en tvævetur í þessu og ég man ekki eftir því áður að stjórnsýslan hafi sýnt jafn mikið fálæti og nú gagnvart beiðnum um að fá að hitta fólk í ráðuneytum,“ segir Arthur Bogason, formaður Landssambands smábátaeigenda í samtali við Morgunblaðið.
Þetta er upphaf fréttar í Mogganum í dag.
Þar segir einnig: „Samtökin sendu um miðjan síðasta mánuð beiðni um fund með forsætisráðherra vegna þeirrar ákvörðunar matvælaráðherra að auka ekki við þorskkvótann í strandveiðum sem leiddi til veiðibanns og stöðvunar flotans. Samtökin óskuðu eftir því að aukið yrði við kvótann um 4.000 tonn svo unnt yrði að stunda strandveiðar út vertíðina sem lauk 12. júlí , en við því var ekki orðið. „Matvælaráðherra hafði öll færi á því að gera betur, en það varð ekki niðurstaðan,“ segir Arthur.“
„Eina viðbragðið sem ég hef fengið frá forsætisráðuneytinu er staðfesting á að fundarbeiðnin var móttekin. Ég hefði nú alveg kosið að fá að vita af því ef við fengjum að hitta forsætisráðherra. Mér finnst merkilegt að sjá upphlaupið í kringum hvalveiðibannið í samanburði við stöðvun strandveiðanna. Það eru margfalt fleiri störf undir í strandveiðunum en í hvalveiðunum, án þess að ég ætli að gera lítið úr áhrifunum af stöðvun hvalveiða, síður en svo,“ segir Arthur.
Arthur bendir á að áhrifin af strandveiðibanninu hafi haft víðtæk áhrif, enda hafi mun fleiri en strandveiðimennirnir orðið fyrir búsifjum af því. Bannið hafi áhrif á störf í fiskvinnslu, í flutningum og á margvíslega aðra þjónustu. „Það er t.d. alveg ljóst að fiskbúðum hefur verið gerð skráveifa með þessu, þannig að áhrifin af stöðvuninni eru miklu víðtækari en menn gera sér grein fyrir,“ segir Arthur og bætir því við að í sínum hópi séu menn ævareiðir vegna bannsins.
„Mér finnst þetta mjög miður, því ég hélt að úrlausn mála ætti að byggjast á samtölum og samskiptum, en þetta er orðið mjög einhliða. Það eru bara sendar tilkynningar og ekki einu sinni gefinn kostur á að ræða málin,“ segir Arthur Bogason í Mogganum í dag.