Davíð Oddsson reiknar allt eins með stjórnarslitum í haust. Hann vill að Sjálfstæðisflokkurinn hefni sín á Svandísi Svavarsdóttur vegna hvalamálsins. Þar með springi ríkisstjórnin. Þetta kemur fram í leiðara í Mogga dagsins. Fyrirsögnin er: „Sumargleðin í stjórnarráðinu“.
„Breiðsíður Brynjars Níelssonar um ríkisstjórnarsamstarfið í viðtali við sunnudagsblað Morgunblaðsins vöktu athygli og voru endurómaðar af fleiri flokksbroddum Sjálfstæðismanna, en án annars rökstuðnings en að ekki hefði allt farið eins og þeir helst kysu. Stjórnin springur ekki af slíkum umkvörtunum, ærslum og sumargleði.
Það er þó ekki allt í himnalagi á
stjórnarheimilinu, líkt
og Óli Björn Kárason, þingflokksformaður Sjálfstæðismanna, lýsti af nokkrum
þunga í grein hér á opnunni fyrr í mánuðinum. Ekki vegna málefnaágreinings
– hann er alltaf einhver – heldur vegna ögrana, óbilgirni og óheilinda
Svandísar Svavarsdóttur. Að óbreyttu er erfitt að sjá nokkurt frumvarp
hennar komast úr þingflokkum stjórnarliðsins í haust og þá verður þessu
skjóthætt.
Standi vilji til þess að halda samstarfinu áfram þurfa forystumenn ríkisstjórnarinnar að bera klæði á vopnin nú þegar og svo hafa þeir fram að hausti að ganga tryggilega frá framhaldinu. Það gerist ekki af sjálfu sér.“