Mogginn stendur ávallt með sínum. Í leiðara dagsins er farið hörðum orðum um skoðun Samkeppniseftirlitsins á eignartengslum í sjávarútvegi. Mogginn efast um að hér sé um eðlilega könnun að ræða. Telur að þetta sé pólitísk aðför Svandísar Svavarsdóttur að ræða. Eftir lestur leiðarans er ekki fjarri að halda að þetta sé málið sem kann að sprengja máttlausa ríkisstjórn. Svo nærri hjarta Moggans og Sjálfstæðisflokksins er hoggið.
Fyrirsögn leiðarans er þessi: „Stjórnlaus og ólögmæt /Pólitísk fiskiferð og fullkomið fánýti“
„Samstarfsverkefni Samkeppniseftirlitsins og Svandísar Svavarsdóttur matvælaráðherra um athugun á eigna- og stjórnunartengslum í sjávarútvegi vekur áleitnar spurningar um lögmætið og góða stjórnsýslu. Þau vinnubrögð hljóta að vera forystumönnum ríkisstjórnarinnar og Alþingi sérstakt umhugsunarefni,“ segir í leiðaranum. Einmitt. Skýr skilaboð.
„En jafnvel þó svo Samkeppniseftirlitið hafi átt allt frumkvæði að athuguninni, líkt og Páll Gunnar Pálsson forstjóri þess hefur borið, þá verður ekki séð hvernig eigna- og stjórnunartengsl í sjávarútvegi eigi erindi á borð Samkeppniseftirlitsins nema uppi sé grunur um samkeppnisbrot. Svo er ekki.
Samkeppniseftirlitið kveðst óttast samþjöppun og getur athugunin náð til 307 fyrirtækja í sjávarútvegi, en það bendir á að þau 20 stærstu hafi nær 73% aflahlutdeilda. 307 fyrirtæki! Eru margar greinar á Íslandi með minni samþjöppun? Eru margir geirar, þar sem 20 stærstu fyrirtækin hafa innan við ¾ tilfanga?“
Þetta er ótrúlega mikið. Tuttugu stærstu útgerðarfyrirtækin ráða þá yfir 73 prósentum kvótans.
Best að klára að lesa leiðarann:
„Samkeppniseftirlitið ætlar aðeins (!) að rannsaka 29 fyrirtæki fyrsta kastið, hvað sem síðar verður. En athugunin á líka að ná til áhrifavalds sjávarútvegsfyrirtækja í öðrum félögum með beitingu atkvæðisréttar eða stjórnarsetu. Sjávarútvegur hefur staðið með miklum blóma og þess hafa aðrar greinar notið, þótt ráðherrann og eftirlitið vilji koma í veg fyrir það.
Eigi að kalla eftir öllum atkvæðagreiðslum og fundargerðum allra félaga, sem sjávarútvegsfyrirtæki kunna að eiga hlut í, mun þessari pólitísku fiskiferð seint ljúka. Og athugunin ekki aðeins ólögmæt og stjórnlaus, heldur fullkomið fánýti.“
Mogginn má slappa aðeins af. Það er alls ekki svo að allt sem kerfið gerir sé óþarft og ónauðsynlegt. Vel kann að vera að mörg okkar vilji endilega fá að vita hvernig aflaheimildir hafa safnast upp og þá líka í hvað auðurinn hefur verið notaður. Hvar eru eignir kvótahafanna? Ef Mogginn og eigendur hans óttast eru óþægilegar fréttir að finna í könnun Samkeppniseftirlitsins.
-sme