Marinó G. Njálsson:
Ansi margt af því sem þarna er skrifað hefur birst bæði í sölunni á Íslandsbanka og greinargerð Sigurðar Þórðarsonar um Lindarhvol.
Mér datt í hug að kíkja á siðfræðikafla Skýrslunnar (skýrslu Rannsóknarnefndar Alþingis – Aðdragandi og orsakir falls íslensku bankanna 2008 og tengdir atburðir, eins og hún heitir fullu nafni), en hann er að finna í 8. bindi Skýrslunnar. Fulllangt er að telja upp allt sem þar kemur fram og vil ég því grípa niður í lokaorðum þess sem kallað er Viðauki 1: Siðferði og starfshættir í tengslum við fall íslensku bankanna 2008. Þar segir m.a.:
„Ljóst er að fyrirtækjamenning bankanna vanrækti siðferðilega þætti og dygðum sem eru kjölfesta góðra viðskiptahátta var kastað fyrir róða. Amast var við eftirlitsaðilum sem gæta eiga góðra starfshátta og verja hagsmuni almennings. Þeim sem sinntu innra eftirliti var til að mynda gert erfitt um vik að sinna skyldum sínum en skemmtideildir voru efldar. Margir meðlimir fagstétta innan bankakerfisins sinntu þröngri hagsmunagæslu fyrir skjólstæðinga sína en létu sig ekki varða afleiðingar athafna sinna fyrir samfélagið í heild. Hugmyndir um samfélagslega ábyrgð höfðu það einkum að markmiði að bæta ímynd fyrirtækjanna fremur en að efla trúverðugleika þeirra til langs tíma litið. Hvatakerfi miðuðust við skammtímagróða stjórnenda og eigenda á kostnað smærri hluthafa og alls almennings. Eigendur bankanna nutu óheftrar fyrirgreiðslu. Taumlítil gróðahyggja einkenndi margvísleg samskipti bankamanna við viðskiptavini og traust almennings var misnotað.“
Ansi margt af því sem þarna er skrifað hefur birst bæði í sölunni á Íslandsbanka og greinargerð Sigurðar Þórðarsonar um Lindarhvol. Er nánast eins og lokaorðin hafi orðið að forskrift að starfsháttum og hegðun einstaklinga sem treyst var fyrir ábyrgðum.
Var við öðru að búast? Ég man ekki eftir því, að farið hafi fram eitthvert átak í því að siðgæðisvæða hvort heldur fjármálakerfið eða þær stofnanir ríkisins sem fengu í hendur það hlutverk að gera upp hrunið. Fjármálafyrirtæki breyttust í hrægamma, sem hirtu eignir af fólki og fyrirtækjum af miklu vægðarleysi og gleymdu alveg því, að þau (þ.e. fjármálafyrirtækin) voru afsprengi gerendanna og fólk og fyrirtæki höfðu sem viðskiptavinir hrunabankanna treyst á heilindi þeirra í ráðgjöf. Stjórnvöld stóðu hjá föst í slíkri gerendameðvirkni, að heimili og fyrirtæki landsins áttu sér ekki viðreisnarvon.
Aftur erum við að sjá gerendameðvirknina, þegar ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur með Bjarna Benediktsson fremstan í fylkingu þykist ekkert illt sjá, heyra eða mega segja. Allt var svo frábært, að skýrslum er stungið ofan í skúffur og innihald þeirra fæst ekki rætt.
Seðlabankinn er líka á kafi í leyndarhyggjunni, þar sem hann neitar að birta skýrslu um fjárfestingarleið bankans, sem var ekkert annað en opinber leið til peningaþvættis.
Meðan almenningur þurfti að færa miklar fórnir, sem leiddi til þess að fólk missti húsnæðið sitt, hjónabönd splundruðust, fólk missti heilsuna og einhverjir tóku eigið líf, þá kemur í ljós, að stjórnvöld með Seðlabankann og fjármála- og efnahagsráðuneyti í fararbroddi útdeildu bytlingum til útvalinna.
Niðurlagsorð lokaorða Viðauka 1 er brýning um breytinga og þeirri brýningu er nauðsynlegt að halda á lofti, því mér finnst sem lítið hafi áunnist:
„Af þessu má sjá að vandinn er víðtækur, djúpstæður og kerfislægur. Skýrsla vinnuhópsins um siðferði og starfshætti sýnir í hnotskurn að brýn þörf er fyrir siðvæðingu á fjölmörgum sviðum í íslensku samfélagi. Þótt margir einstaklingar hafi vissulega gerst sekir um ámælisverða hegðun og á því þurfi að taka með viðeigandi hætti, er varasamt að einblína á þá. Frá siðferðilegu sjónarmiði er til lengri tíma litið brýnast að treysta lýðræðislega innviði samfélagsins og styrkja stjórnkerfið; bæta þarf viðskiptasiðferði, stjórnsiði og vinnulag, efla fagmennsku og siðferðisvitund. Styrkja þarf skilyrði siðferðilegrar rökræðu meðal borgaranna um sameiginleg hagsmunamál sín. Leggja þarf áherslu á réttnefnda samfélagsábyrgð og hamla gegn sérhagsmunaöflum og þröngri einstaklingshyggju. Siðvæðing íslensks samfélags ætti einkum beinast að því að styrkja þessa þætti og það er langtímaverkefni sem krefst framlags frá fólki á öllum sviðum samfélagsins.“
Ísland er ekki nógu stórt, svo hægt sé að fela spillingu og græðgi. Leyndarhyggja er bara staðfesting á því, að eitthvað fór stórlega úrskeiðis og því viðurkenning á sekt. Þó Ísland sé að mörgu líkt eyjasamfélagi, þá á enginn samfélagið og getur sagt öðrum að hypja sig séu þeir ekki sáttir við ákvarðanir stjórnvalda. Góð siðgæðisvitund er með dýrmætari eignum hvers manns og að svína á almenningi, vegna þess að tækifærið gafst, lýsir ekki heilstæðum einstaklingi. Samfélagsábyrgð birtist í því, að koma fram af heilindum í öllum sínum verkum og falla ekki í freistni spillingar og græðgi.
Greinina birti Marinó á eigin Facebooksíðu Greinin er birt hér með velvild höfundar. Miðjan valdi fyrirsögnina. –ritstj.