„Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra hefur ekki miklar áhyggjur af þeim litla stuðningi sem mælist við ríkisstjórn hennar. Hún segir stjórnina standa sterkum fótum,“ samkvæmt viðtali á rúv.is.
Samkvæmt þjóðarpúlsi Gallup er rétt um þriðjungur kjósenda sem styðja ríkisstjórnina.
„Auðvitað er það svo að þessi ríkisstjórn hefur notið mikils stuðnings framan af og meiri stuðnings en margir fyrirrennarar hennar. Við erum auðvitað fyrsta ríkisstjórnin í töluvert mörg ár sem að situr annað kjörtímabil þannig að það er kannski ekki nema von að stuðningur dvíni eitthvað.“
Katrín telur að minni stuðningur við ríkisstjórnina sé til kominn vegna stöðunnar í efnahagsmálum. „Að einhverju leyti held ég að þetta endurspegli þunga stöðu í efnahagsmálum, verðbólgu og vaxtastig. En að sjálfsögðu er þetta líka brýning til okkar að standa okkur í þeim verkefnum sem að okkur hafa verið falin.
Stuðningurinn er sá minnsti sem mælst hefur við sitjandi ríkisstjórn síðan í júlí 2017. Sú ríkisstjórn sprakk einum og hálfum mánuði síðar. Katrín segist ekki hafa áhyggjur af því að það eigi fyrir þessari ríkisstjórn að liggja.
„Nei, ég hef það ekki. Að sjálfsögðu hafa verið ýmis mál uppi sem hafa reynt á samstarfið, bæði nú og fyrr. En það er algjörlega óbreytt að það ríkir gott traust á milli, bæði flokkanna og forystumanna þeirra.“
Hún metur það svo að samstarfið standi styrkum fótum. „Við munum leggja ýmislegt á okkur til að leysa úr þeim málum sem við stöndum frammi fyrir.“