Jón Örn Marinósson skrifaði:
Svonefndur „fjármálaheimur“, hvort sem er hér á landi eða annars staðar, hefur ævinlega verið fremur óviðkunnanleg skuggaveröld. Jafnvel besta fólk, sem gengur niður í þennan heim, virðist missa skynbragð á hvað er rétt og hvað er rangt, ekki aðeins samkvæmt lögum og reglum heldur einnig samkvæmt almennum óskráðum siðgæðisviðmiðum.
Dapurlegast þótti mér, þegar ég heyrði fréttir af tímamótaskýrlu fjármáleftirlits um sölu á hlut í Íslandsbanka, að ekkert í þessari skýrslu vakti undrun mína. Kominn á þennan aldur og eftir áratugakynni af íslenskum fjármálaheimi kom mér ekki á óvart að þarna hefðu ráðið mestu við söluna ágóðavon, sem freistaði fólks til að sniðganga reglur, fégræðgi, fjölskyldutengsl, vinátta og kunningsskapur í okkar fámenna samfélagi.
Og ég trúi því ekki að fjármálaráðherra og formaður Bankasýslunnar hafi ekki gert sér fulla grein fyrir, þegar ráðist var í söluna á hlut í Íslandsbanka, hvernig „kaupin gerast á eyrinni“. Líkast til hafa þeir talið affarasælast að fylgjast með sölunni úr hæfilegri fjarlægð og treysta því að menn, sem sáu um söluna hjá Íslandsbanka og öðrum fjármálafyrirtækjum, „kynnu til verka“ svo að ekkert misjafnt kæmist upp á yfirborðið.
Fjármálaeftirlitið á heiður skilinn fyrir að hafa flett ofan af því sem fór fram í Íslandsbanka.