Vilhjálmur Birgisson skrifaði:
Frábær fundur um þá geræðislegu ákvörðum matvælaráðherra um „frestun“ á hvalveiðum. Formaður VLFA opnaði fundinn og kom fram í hans máli að heildar launatekjur sem starfsmenn Hvals hf. eru að verða af vegna ákvörðunar matvælaráðherra nemi um 1,2 milljarði og er það fyrir utan launatengd gjöld og áhrifin af þeim fjölmörgu afleiddu störfum sem verða til á meðan á vertíð stendur. Þetta er gríðarlega alvarlegt mál, að ráðherra geti tekið svona gerræðislega ákvörðun þar sem meðalhófi og andmælarétti er sturtað niður í holræsið.
Fundinum var einnig streymt á visir.is og höfðu því mun fleiri möguleika á að fylgjast með og var sá möguleiki svo sannarlega vel nýttur. Formaður vill þakka Stöð 2/Vísi og visi.is fyrir að hafa streymt þessum fundi en samkvæmt upplýsingum sem hann hefur aflað sér hafa yfir 20.000 manns nú þegar horft á fundinn. Það var frábært framtak hjá þessum aðilum að gefa landsmönnum tækifæri til að sjá fundinn í beinni útsendingu eins og raunin varð.