Kolbrún Bergþórsdóttir á Mogganum er ekki hrifin af orðuveitingum. Um það skrifar hún fínan pistlil í blað dagsins:
Það er afar margt í þessu lífi sem maður skilur alls ekki. Eitt af því er hið stórfurðulega fyrirbæri orðuveitingar. Ekki hafa orður praktískt gildi því það má víst ekki vera með þær á mannamótum, þannig að ómögulegt er að monta sig mikið af þeim og ekki er hægt að selja þær dýrum dómum og gera líf sitt aðeins þægilegra. Ekki eru þær heldur fallegar svo ekki gleðja þær augað. En það er reyndar ansi margt ljótt í kringum mann, eins og til dæmis nýja Landsbankahúsið sem er svo skelfilegt að hjarta manns fyllist hryggð í hvert sinn sem maður lítur það augum. Um það mætti skrifa langt mál.
Í hvert sinn sem fólk er kallað á Bessastaði til að taka á móti orðu mæta fjölmiðlar á svæðið til að mynda forsetann og orðuhafana. Þar eru allir mjög glaðir. Venjulega er einhver í hópnum sem maður þekkir og þá segir maður við sjálfan sig: Langaði þennan virkilega í orðu?
Það er ansi margt sem maður þráir í þessum heimi en eitt af því sem maður kærir sig alls ekki um er orða. En fyrir suma er orða kannski vítamínsprauta fyrir egóið. Og gerir um leið ákveðið gagn.